Fréttir

Karfa: Konur | 17. mars 2010

Keflavíkurstúlkur sigruðu á lokasprettinum

Það var rafmagnað andrúmsloft í Toyota Höllinni í kvöld þegar Keflavíkurstúlkur mættu Hamarsstúlkum. Hamarsstúlkur höfðu komist yfir á laugardaginn í einvíginu og því afar mikilvægt fyrir Keflavíkurstúlkur að landa sigri. Svo fór að lokum að þeim tókst það og voru lokatölur leiksins 77-70.

 Það var þó ekki gæfuleg byrjunin fyrir Keflavíkurstúlkur í kvöld, en Birna Valgarðsdóttir náði að landa sinni 3. villu þegar tæplega 4 mínútur voru búnar af 1. leikhluta. Stórt skarð var höggvið í Keflavíkurliðið snemma í leiknum. Stelpurnar létu þó ekki deigan síga og héldu vel í Hamarsstúlkur, en staðan eftir fyrsta leikhluta var 23-24. Annar leikhluti var þokkalegur hjá báðum liðum, en þó voru Hamarsstúlkur grimmari í boltann undir körfunni. Staðan í hálfleik var 36-41 fyrir Hamarsstúlkum. Í 3. leikhluta byrjuðu Hamarsstúlkur betur en þegar fór að líða á leikhlutann, þá gáfu Keflavíkurstúlkur í og komust yfir. Liðin skiptust síðan reglulega á að taka forystu í leikhlutanum, en þegar leikhlutinn var yfirstaðinn, þá var staðan jöfn 56-56. 4. leikhluti var æsispennandi en Keflavíkurstúlkur höfðu taugarnar í þetta og kláruðu dæmið með stæl. Lokatölur eins og fyrr segir 77-70.

Þar af leiðandi náðu Keflavíkurstúlkur að jafna einvígið 1-1. Næsti leikur fer fram á heimavelli Hamars í Hveragerði. Hann spilast á föstudaginn næstkomandi klukkan 19:15. Allir hvattir til að taka einn föstudagsrúnt og mæta á leikinn til að styðja við stelpurnar.

Hjá Keflavík var Birna Valgarðsdóttir atkvæðamest með 21 stig, en Rannveig Randversdóttir skoraði 15. Hjá Hamar var Julia Demirer með 16 stig og Koren Schram með 15.