Fréttir

Karfa: Konur | 29. október 2011

Keflavíkurstúlkur sigruðu grannaslaginn

Það biðu eflaust margir eftir grannaslag hjá Keflavík og Njarðvík í dag í Iceland Express deild kvenna, en leikurinn fór fram í Toyota Höllinni. Að vísu var frekar dapurt að sjá hversu léleg mæting var á þessum stórleik, en þó er dagur og tími einnig óhentugur mörgum.

Leikurinn byrjaði hressilega og mikil barátta var í báðum liðum. Mikið jafnræði var með stigaskorun liðanna og Jaleesa Butler átti flottan 1. leikhluta, en hún skoraði 13 stig í leikhlutanum. Staðan eftir 1. leikhluta var 26-24 fyrir Keflavík. Í öðrum leikhluta hélt baráttan áfram, en Keflavíkurstúlkur náðu ákveðnum undirtökum á leikhlutanum sem skilaði þeim forystu í hálfleik 53-45.

Í seinni hálfleik virtist nokkuð jafnræði ætla að vera í byrjun leikhlutans, en þegar um 5 mínútur voru liðnar settu Keflavíkurstúlkur í fluggír og urðu dýrvitlausar. Þær tók 19-0 áhlaup á Njarðvík og staðan því skyndilega orðin 81-58. Í 4. leikhluta héldu þær uppteknum hætti og leyfðu Njarðvík aldrei að komast almennilega inn í leikinn aftur, enda munurinn orðinn alltof mikill.

Lokatölur leiksins 105-85.

Jaleesa Butler fór hamförum í dag og skoraði 35 stig, ásamt því að taka 23 fráköst. Leiðtoginn Birna Valgarðsdóttir skoraði 25 stig og hirti 13 fráköst. Ungviðið Sara Rún Hinriksdóttir átti flottan leik og skoraði 19 stig. Hrund Jóhannsdóttir var með 10 stig, Helga Hallgrímsdóttir 9 stig, Pálína Gunnlaugsdóttir 6 stig og Aníta Eva Viðarsdóttir 1 stig.

Hjá Njarðvík var Lele Hardy með 28 stig og 19 fráköst. Shanae Baker skoraði 24 stig.


Jaleesa Butler fór mikinn í dag og skoraði 35 stig (mynd: karfan.is)

 


Staðan í deildinni í dag (29. október 2011)