Fréttir

Keflavíkurstúlkur sigurvegarar í Ljósanæturmóti Geysis
Karfa: Konur | 5. september 2013

Keflavíkurstúlkur sigurvegarar í Ljósanæturmóti Geysis

Keflavík sigraði nágranna sína í Njarðvík 61:53 í úrslitum Ljósanæturmóts Geysis í gærkveldi. Njarðvíkurstúlkur hófu leikinn betur og leiddu með 8 stigum í hálfleik 28:36 en ljóst að bæði lið voru ekki komin í sitt besta spilaform.  Heimastúlkum tókst þó með baráttu og elju að sigra leikinn og geta þakkað það góðri vörn en Njarðvíkurstúlkur skoruðu aðeins 17 stig í seinni hálfleik. Keflavíkurstúlkur virðast háðar gulli en eftir að hafa sigrað í öllum keppnum síðasta tímabils hafa þær unnið tvö "undirbúningsmót" það sem af er þessu tímabili, Landsmótið og nú Ljósanæturmót Geysis.
 
Stigahæstar hjá Keflavík voru Bryndís Guðmunds með 21 stig og Ingunn Embla kom næst með 12.  Hjá Njarðvík var Jasmin með 15 stig og Erna Hákonardóttir með 14, en sú síðastnefnda var á eldi í fyrsta fjórðung þar sem hún setti niður 11 stig - allt úr skotum utan af velli!

Mynd: Keflavíkurstúlkur ánægðar með nýjasta bikarinn en þær höfðu það á orði að þetta væri sá bikar sem þeim þætti vænst um að hafa unnið þetta árið. Með þeim á myndinni er Garðar Ketill Vilhjámsson, eigandi Geysir Car Rental, en fyrirtækið stóð að baki mótinu í ár ásamt Keflavík og Reykjanesbæ.

Lokaleikur mótsins fer fram í kvöld kl. 19.15 þegar heimamenn mæta liði ÍR í karlaflokki. Keflvíkingar vilja koma á framfæri miklu þakklæti til allra sem hafa staðið að mótinu með Keflvíkingum, þ.e. Geysi og Reykjanesbæ. Þá er þátttökuliðunum sérstaklega þökkuð þeirra aðstoð!