Keflavíkurstúlkur taka á móti KR í kvöld - "Ætlum að halda áfram að standa okkur"
Keflavíkurstúlkur á móti KR í Toyotahöllinni í kvöld kl. 19.15 í Domino´s deild kvenna. Keflavík hefur hafið leiktíðina nánast óaðfinnanlega og eru sem stendur á toppi deildarinnar með 9 sigra en ekkert tap. Búast má við hörðum slag því svona góðri byrjun fylgir auðvitað sú staðreynd að öll lið deildarinnar vilja vera fyrst til að enda sigurgönguna. Sara Rún Hinriksdóttir hefur farið mikinn í upphafi móts en hún er með 15 stig, 10 fráköst, 2.5 stolna bolta og 2 varin skot að meðaltali í leik. Sara býst við erfiðum leik í kvöld enda sé KR með gott lið, "Við ætlum okkur að sjálfsögðu að vinna þennan leik en við þurfum að leggja okkur allar fram í kvöld til að ná góðum úrslitum"
Nú eru þið 9-0 í deild og komnar áfram í bikarnum. Áttir þú von á þessu fyrir tímabilið og hverju þakkaru þetta góða gengi?
Já, bæði og, við erum með rosalega stóran og breiðan hóp og margar góðar stelpur. Ég myndi segja að það sé metnaður okkar stelpnanna og framlag okkar á æfingum sem hefur komið okkur á þann stað sem við erum á.
Nýr þjálfari í brúnni, hvernig kunni þið stelpurnar við Sigga?
Siggi er náttúrulega með bestu þjálfurum á landinu og rosalega klár í því sem hann er að gera. Við kunnum bara rosalega vel við hann. Siggi er metnaðarfullur þjálfari og kröfuharður og hann getur verið frekar orðljótur og harður þegar við erum ekki að standa okkur.
Hverju mega Keflvíkingar búast við af liðinu það sem eftir lifir móts?
Við ætlum að halda áfram að standa okkur og gera okkar besta í að taka bikaran aftur heim.