Keflavíkurstúlkur tóku toppslaginn í gær
Það var toppslagur að hætti hússins í gærkvöldi þegar Njarðvíkurstúlkur voru mættar í Toyota Höllina til að berjast við Keflavíkurstúlkur, en leikið var í Iceland Express deild kvenna. Fyrir leikinn var Keflavík með tveggja stiga forystu á Njarðvík í deildinni og ljóst var að um afar mikilvægar leik var að ræða. Leikurinn var í járnum að undanskildum fyrsta leikhluta, en svo fór að Keflavík fór með sigur af hólmi 68-66.
Það byrjaði ekki gæfulega fyrir Keflavík þegar að Njarðvíkurstúlkur komi með trukki inn í leikinn og áttu hreinlega völlinn. Þær voru komnar í 9-21 forystu þegar að fyrsta leikhluta lauk og Falur lét sínar stelpur heyra það í pásunni. Eitthvað hefur það haft að segja, því Keflavík kom með allt öðru trukki inn í annan leikhluta og saxaði jafnt og þétt á forskot Njarðvíkinga. Undir loka leikhlutans var staðan skyndilega orðin 33-31 Keflavík í vil.
Seinni hálfleikurinn var jafn og spennandi og ljóst að hvorugt liðið ætlaði að gefa eftir. Eboni Mangum, nýji leikmaður Keflvíkinga, og Pálína Gunnlaugsdóttir voru allt í öllu á vellinum og héldu Keflavík inni í leiknum. Leikurinn var jafn að stigum þegar um 40 sekúndur voru eftir og Keflavík í sókn. Það kom í hlut Hrundar Jóhannsdóttur að skora síðustu stig Keflvíkinga í þessari sókn, en lokasókn Njarðvíkurstúlkna fór forgörðum. Góður sigur Keflavíkurstúlkna 68-66 staðreynd.
Með sigrinum náðu stelpurnar að auka forskot sitt í 4 stig á toppi deildarinnar, en 3 leikir eru eftir í deildinni.
Eboni Mangum kom sterk inn í sinn fyrsta leik og lítur hún mjög vel út. Hún skoraði 21 stig og gaf 9 stoðsendingar. Pálína Gunnlaugsdóttir skoraði 17 stig, Jaleesa Butler 8 stig og 15 fráköst, Hrund Jóhannsdóttir 6 stig, Lovísa Falsdóttir 5 stig, Birna Valgarðsdóttir 5 stig, Sara Rún Hinriksdóttir 4 stig og Helga Hallgrímsdóttir 2 stig.
Stelpurnar fögnuðu ákaft í leikslok (mynd: vf.is)