Keflavíkurstúlkur úr leik í Powerade bikar
Það var að duga eða drepast fyrir erkifjendurna í kvennaliði Keflavíkur og Njarðvíkur í gærkvöldi, en liðin áttust við í 8-liða úrslitum Powerade bikarkeppninnar. Leikurinn var háspenna lífshætta undir lokin og fór í framlengingu þar sem Njarðvíkurstúlkur báru sigur úr býtum 78-72.
Leikurinn þróaðist nokkuð jafnt í fyrri hálfleik og var staðan 36-38 í hálfleik. Í 4. leikhluta höfðu Keflavíkurstúlkur náð 10 stiga forskoti þegar um 6 mínútur lifðu leiks, en Njarðvík kom til baka og minnkaði muninn hratt. Umdeilt atvik átti sér stað undir lok leiks þegar að dómarar leiksins leiðréttu misskilning sem átti sér stað í fyrri sókn hjá Njarðvík, sem endaði með því að í stað þess að taka innkast þegar 7 sekúndur voru eftir, þá var Petrúnella sett á vítalínuna og staðan 66-67 fyrir Keflavík. Hún hitti úr fyrra og seinna geigaði, en eftir smá darraðadans var framlengt. Njarðvíkurstúlkur voru einfaldlega með meiri grimmd í framlengingunni og sigruðu leikinn 78-72 eins og fyrr segir. Bikardraumur 2011-2012 því úr sögunni hjá kvennaliðinu, en karlarnir eiga enn möguleika.
Stig Keflavíkurliðsins í gær:
Keflavík: Jaleesa Butler 30/14 fráköst/6 stolnir, Pálína Gunnlaugsdóttir 15/5 fráköst, Sara Rún Hinriksdóttir 10/5 fráköst, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 8/6 fráköst, Helga Hallgrímsdóttir 6/8 fráköst, Shanika Chantel Butler 3/4 fráköst/6 stoðsendingar