Keflvíkinga hefja úrslitakeppni karla á morgun
Strákarnir í Keflavík mæta Stjörnunni í 1. leik liðanna í 8-liða úrslitum á föstudag kl. 19.15. Leikurinn fer fram í Garðabæ. Ljóst er að erfiður leikur er fyrir höndum en þeir sem eru í kringum Keflavíkurliðið, þjálfarar, leikmenn og aðrir eru vongóðir um að liðið fari áfram í 4-liða úrslitin. Svo að það gerist þarf þó margt að haldast í hendur og því er mikilvægt að strákarnir fái stuðning Keflvíkinga, bæði í útileikinn sem og heimaleikinn. Heimasíðan heyrði í Almari Guðbrandssyni hinum stór-efnilega miðherja Keflavíkurliðsins og lagði fyrir hann spurningar í aðdraganda leiksins.
"Úrslitakeppnin er allt önnur keppni"
- segir Almar Guðbrandsson
Eru menn tilbúnir fyrir átökin gegn Stjörnunni?
Já, að sjálfsögðu, erum búnir að fara vel yfir hlutina síðustu daga og menn eru að gíra sig upp í þetta.
Hvernig líst þér á einvígið?
Lýst mjög vel á það. Þetta verður jafnt og skemmtilegt einvígi á milli tveggja frábærra liða. Ef við gerum hlutina rétt og af krafti þá eigum við að taka þetta.
Nú töpuðum við deildarleikjum þessara liða mjög illa, eigum við einhverja möguleika?
Já, klárlega. Úrslitakeppnin er allt önnur keppni og einbeitingin er í hámarki á þessa leiki. Við lentum illa í því á móti þeim í deildinni og nú er kominn tími á að við sýnum þeim úr hverju við erum gerðir. Staðan er 0-0 í byrjun leiks, svo er það bara hverjir vilja þetta meira!