Fréttir

Keflvíkingar áfram í unglingaflokki eftir dramatískan sigur á KR
Karfa: Karlar | 23. apríl 2013

Keflvíkingar áfram í unglingaflokki eftir dramatískan sigur á KR

Keflvíkingar komust í kvöld áfram í unglingaflokki karla eftir dramatískan 88-84 sigur á KR í 8-liða úrslitum en leikurinn fór fram í Toyotahöllinni. Framlengja þurfti leikinn og voru það heimamenn sem voru sterkari aðilinn í framlengingunni þrátt fyrir að Andri Daníelsson og Valur Orri Valsson hafi verið komnir með 5 villur. Þegar um 14 sekúndur voru eftir af leiknum voru KR-ingar með pálmann í höndunum. Valur Orri hafði fengið sína fimmtu villu og KR með fjögurra stiga forskot eftir vítaskot. Inn á völlinn í stað Vals steig hins vegar Sigurður Vignir Guðmundsson sem hafði vart spilað í leiknum fram að því. Kappinn skeiðaði fram völlinn og setti niður þrist úr erfiðri stöðu og brutu Keflvíkingar í kjölfarið. KR-ingar settu niður bæði skotin og nú munaði þremur stigum. Keflvíkingar óðu fram völlinn og þegar öll sund virtust lokuð tókst Hafliða Má Brynjarssyni að setja þrist í vonlausri stöðu og tryggja þannig framlengingu. Skemmst er frá því að segja að Keflvíkingar spiluðu betur í jafnri framlengingu, þar sem fyrrnefndur Sigurður Vignir lék af miklu öryggi og setti mikilvæg vítaskot ofaní, og tryggðu sér farseðil í 4-liða úrslit unglingaflokks. 

Besti leikmaður Keflavíkur var Snorri Hrafnkelsson sem átti stórleik, bæði í sókn og vörn, en hann skilaði 21 stigi og eflaust yfir 20 fráköst ásamt því að verja fjölda skota. Aðrir leikmenn sem létu að sér kveða voru Valur Orri með 20 stig, Andri Daníelsson með 13 stig, Hafliði Már með 9 stig, Ragnar Albertsson með 8 stig, Atli Ragnarsson og Sigurður Vignir með 6 stig og Andri Skúlason með 5 stig.