Keflvíkingar eru úr leik eftir slaka frammistöðu þar sem Rögnvaldur dómari tryggði Skallagrími sigur á lokasekúndum leiksins
Það er engum blöðum um það að flétta að Keflvíkingar áttu í kvöld arfaslakan fyrri hálfleik. Íslandsmeistararnir virkuðu ráðvilltir í sóknarleiknum, algerlega skorti áræðni og hraða. Skallarnir voru hins vegar vel stemmdir og sérstaklega skyttur þeirra, þeir Hafþór og Pétur, sem sölluðu niður þristum í gríð og erg. Ekkert gekk hjá okkar mönnum og voru áhorfendur hálf skelkaðir í hálfleik, menn skildu ekki hvernig á því stóð að nýkrýndir Deildarmeistarar léku langt langt undir getu. En svona eru íþróttirnar, engu líkara var en að menn væru ennþá staddir í síðasta fjórðungi fjórða leiksins, en þar gekk hvorki né rak.
Í seinni hálfleik tóku menn við sér og 14 stiga forskot gestanna minnkaði ört. Gríðarleg stemming var meðal fjölmargra áhorfenda í Sláturhúsinu sem því miður stóð ekki undir nafni í þetta skiptið. En líf hafði færst í heimamenn. AJ og Arnar Freyr sýndu hugrekki og eldmóð, keyrðu upp hraðann og skoruðu grimmt. Sverrir og Jonni voru öflugir í vörninni og nú var komið að Sköllum að panikka pínulítið, þeir sáu forskotið hverfa og sóknarleikur þeirra varð stirðari.
Síðustu mínúturnar voru hrikalega spennandi. Byssur Skallanna höfðu kólnað, en nú fóru þeir inn á Byrd í hverri sókn og hélt hann þeim inní leiknum. Jafnræðið var algert. Í stöðunni 80-80 braut Arnar Freyr á Byrd sem fékk tvö víti sem hann misnotaði. Þessi villa Arnars var sú fimmta og þurfti hann að yfirgefa völlinn fyrir vikið. Hann var ósáttur við dóminn og sagði samkvæmt okkar heimildum “þú hlýtur að vera að grínast” við Rögnvald dómara á leið út af velli. Öllum að óvörum dæmdi Rögnvaldur tæknivillu á Arnar og tryggði þar með Sköllum sigur. Pétur setti niður tvö víti og síðan skoraði Jovan þegar sex sekúndur voru eftir. Í stað þess að Keflvíkingar fengu boltann í stöðunni 80-80 með 28 sekúndur eftir með alla möguleika á sigri, fengu þeir boltann í stöðunni 80-84 með 6 sekúndur eftir, algerlega án möguleika. Game over.
Okkar menn voru slakir eins og áður sagði og Skallagrímsmenn unnu vel fyrir sigrinum. Við óskum þeim til hamingju um leið og við þökkum þeim fyrir skemmtilega rimmu.
Eftir stendur þó hin ótrúlega dómgreindarlausa tæknivilla Rögnvalds. Hann tók þá ákvörðun að klára leikinn með því að dæma tæknivillu á frekar saklaust komment Arnars, en við sem vorum við hliðarlínu vallarins urðum vitni að miklu harðari gagnrýni en þeirri sem kom frá Arnari, úr herbúðum beggja liða. Af hverju voru ekki dæmdar tæknivillur á þau komment? Hvar var samræmið, hvar var sanngirnin?
Hvað gekk Rögnvaldi til? Þessi dómur er algert hneyksli og opinberar algerlega að maðurinn ræður engan veginn við að leiða spennuleik sem þennan. Hann tekur völdin af leikmönnum og ræður úrslitum sjálfur. Komment sem þetta í hita svo mikilvægs leiks getur ekki á nokkurn hátt verskuldað tæknivillu. Tæknivilla er afar afgerandi dómur því liðið sem hagnast á dóminum fær tvö vítaskot sem besta vítaskyttan getur framkvæmt, auk þess fær liðið boltann aftur.
Það þarf að leita langt aftur í sögubækur til að finna jafn afgerandi dæmi um jafn afdrifarík dómaraafglöp. Dómarinn dæmdi okkur úr leik, aleinn og óstuddur. Það verður ekki horft framhjá því. Við vitum hins vegar vel að það telst ekki mjög karlmannlegt að kenna dómaranum um þegar maður tapar og við viljum á engan hátt gera lítið úr góðum leik Skallagrímsmanna. Þetta atvik var bara svo ótrúlegt og afdrifaríkt, svo hrikalega úr takti við leikinn, að maður getur ekki annað en bent á það. Dómarar eru ekki yfir gagnrýni hafnir og við vonum bara að Rögnvaldur verði ekki látinn leiða leikina í úrslitunum sem framundan eru. Svona frammistaða verðskuldar ekki fleiri topp leiki í bráð.
Við verðum engu að síður að sætta okkur við tapið og gerum það auðvitað. En Keflvíkingar munu nú leggjast örstutt undir feld og huga að næstu leiktíð, því fullur hugur er á því að ná strax aftur í Íslandsbikarinn eftirsótta.
Við óskum að lokum Njarðvíkingum og Borgnesingum alls hins besta í úrslitunum sem framundan eru og vonum að þau verði góð skemmtun fyrir alla körfuboltaunnendur á landinu.
ÁFRAM KEFLAVÍK!