Keflvíkingar komnir í 8-liða úrslit Powerade bikarkeppninnar
Keflvíkingar tryggðu sér sæti í 8-liða úrslitum Poweradebikar karla, en þeir fóru í ferðalag í Borgarnes í dag þar sem þeir mættu Skallagrímsmönnum. Lokatölur leiksins voru 74-88.
Skallagrímur var hugsanlega sýnd veiði, en alls ekki gefin. Því komust Keflvíkingar að snemma í leiknum, þar sem ekki var gefinn þumlungur eftir í baráttunni. Skallagrímur sýndi hörkuleik og áttu Keflvíkingar í mestu basli við að hrista þá af sér. Staðan í hálfleik var 40-41 og eflaust kom Sigurður Ingimundarson með öfluga hálfleiks-ræðu inni í búningsklefa. Keflvíkingar sýndu klærnar í 3. leikhluta og náðu að setja 20 stig gegn einungis 8 hjá Skallagrím. 4. leikhluti var með svipuðu sniði og voru Keflvíkingar því sloppnir fyrir horn.
Maggi Gun var með 27 stig í dag, Charles Parker 17, Jarryd Cole 16 og Steven Gerard 15.
Maggi Gun var öflugur í kvöld (mynd: karfan.is)