Fréttir

Karfa: Karlar | 13. apríl 2010

Keflvíkingar komnir í úrslit!

Keflvíkingar tryggðu sér sæti í úrslitum Iceland Express deildarinnar í kvöld með hreint út sagt mögnuðum sigri á Njarðvík. Lokatölur leiksins voru 83-89.

Bæði lið stóðu sig frábærlega í kvöld en Keflvíkingar sýndu stáltaugar á lokamínútu leiksins og kláruðu dæmið. Þeir höfðu verið yfir meira og minna allan leikinn og sýndu gríðarlegan styrk með því að brotna ekki á lokasekúndum leiksins þegar Njarðvíkingar náðu að koma sterkir til baka og minnka muninn í 2 stig. Það var enginn annar en Draelon Burns sem setti síðasta naglann í kistu Njarðvíkinga þegar hann skaut baneitruðum þrist beint ofan í þegar um 20 sekúndur voru eftir af leiknum og kom Keflavík þar með í 5 stiga mun. Klárlega mikilvægasta karfa leiksins og Keflvíkingar fögnuðu sigrinum í leikslok. Trommusveitin stóð sig frábærlega í kjaftfullri Ljónagryfju og eiga þeir allt hrós skilið fyrir frábæra stemningu.

Nú tekur við nokkra daga frí hjá Keflavík og á fimmtudaginn ræðst það hvort það verður KR eða Snæfell sem mætir Keflavík í úrslitarimmunni. Klárlega gaman að mæta báðum þessum liðum og eins og Gunnar Einarsson sagði í viðtali, þá eru kostir við bæði lið. Með Snæfell á Keflavík heimavallarréttinn en þarf að ferðast lengri vegalengd. Gegn KR eru styttri ferðalög en enginn heimavallarréttur.

Njarðvíkingar fá hrós fyrir mikla baráttu og góða stemningu frá áhorfendum í þessari rimmu. Því miður er bara eitt lið sem kemst í úrslitin, en gaman hefði verið að sjá þessi lið berjast í úrslitarimmunni.

Núna er bara að setja bæinn á hvolf og hvetja alla til að mæta á fyrsta leikinn í úrslitarimmunni, hvort sem það verður heima- eða útileikur!

Áfram Keflavík!