Fréttir

Karfa: Karlar | 5. febrúar 2012

Keflvíkingar komnir í úrslit Poweradebikars

Keflvíkingar tryggðu sér farmiða í úrslit í Poweradebikar karla í kvöld þegar þeir lögðu KFÍ að velli í Toyota Höllinni. Svo fór að Keflvíkingar sigruðu leikinn 90-77.

Leikurinn var rólegur til að byrja með og fátt um fína drættu hjá báðum liðum. Maggi Gun átti fínan fyrsta leikhluta og skoraði 10 stig. Lítið sást til annarra leikmanna og náðu KFÍ menn alltaf að narta í hælana á Keflvíkingum. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 24-19.

Keflvíkingar byrjuðu annan leikhluta af fullum krafti og náðu að setja 11 stig gegn 0 hjá KFÍ, en skyndilega var því staðan orðin 35-21. Ísfirðingarnir reyndu þó að halda andlitinu og settu niður nokkur stig til móts við Keflvíkingana, en náðu þó aldrei að komast á flug. Staðan í hálfleik var 49-35.

Keflvíkingar leyfðu Ísfirðingum aldrei að komast aftur almennilega inn í leikinn í seinni hálfleik, en að sama skapi má segja að Keflavík hafi í raun aldrei verið að spila frábæran leik. Menn reyndu t.d. mikið af djörfum sendingum sem fóru forgörðum. Það skipti þó ekki máli í þessari viðureign, enda sigurinn í höfn og lokatölur 90-77 eins og fyrr segir.

Maggi Gunnars var atkvæðamestur Keflvíkinga með 25 stig, en næstur honum kom Charles Parker með 20 stig. Jarryd Cole var með 14 stig og 17 fráköst. Valur Orri Valsson skoraði 13 stig og Halldór Halldórsson 10.

 

Andstæðingar Keflvíkingar í úrslitum verða Tindastólsmenn, en þeir lögðu KR-inga að velli í kvöld á Króknum. Þetta er í fyrsta sinn sem að Tindastólsmenn komast í úrslit bikarkeppni KKÍ. Keflvíkingar komust síðast í höllina 2005-2006 tímabilið, en þá töpuðu þeir úrslitaleiknum gegn Grindavík.

Nú hvetjum við alla Keflvíkinga til að setja sig í gír og mæta svo gallvaskir í höllina 18. febrúar næstkomandi þegar strákarnir spila til úrslita.

Áfram Keflavík!

 

Maggi Gun var atkvæðamestur í kvöld með 25 stig (mynd: karfan.is)