Fréttir

Karfa: Karlar | 24. apríl 2010

Keflvíkingar með bakið upp við vegg

Keflvíkingar eru komnir með bakið upp við vegg eftir að hafa verið sundurspilaðir af Snæfellingum í dag, en lokatölur leiksins voru 85-100. Snæfell leiddi allan leikinn og minnstur varð munurinn 2 stig, lengra komust Keflvíkingar ekki. Á tímabili leit þetta bærilega út og ætlaði að verða spennandi leikur, en bensíndroparnir hjá Keflavíkurliðinu kláruðust á ögurstundu sem gerði það að verkum að Snæfellingar héldu áfram að drita niður körfunum gegn litlu mótsvari. Næsti leikur á mánudaginn í Hólminum og þarf mikið að gerast í leik Keflavíkurliðsins til að þeir landi sigri þar.

Nick Bradford kom mjög sterkur inn og skoraði 26 stig fyrir Keflavík, en hann var besti maður Keflavíkurliðsins í dag. Hörður Axel Vilhjálmsson skoraði 20 stig, en hann fór allt of seint í gang í leiknum og var í raun skugginn af sjálfum sér í fyrri hálfleik. Hlynur Bæringsson var erfiður og skoraði 29 stig ásamt því að taka 13 fráköst.