Keflvíkingar með sigur í Lengjubikarnum
Keflvíkingar héldu í ferðalag í kvöld og heimsóttu Hamarsmenn í Hveragerði, en leikið var í Lengjubikarkeppni karla. Svo fór að Keflvíkingar báru sigur úr býtum og lokatölur 83-98.
Keflvíkingar byrjuðu leikinn af krafti og komust í 0-8 forystu. Þá hrökk vélin í gang hjá Hamar og þeir hófu leik. Þeir voru að berjast í bökkum í fyrsta leikhluta að vinna upp mikinn mun, en þegar leikhlutanum lauk var Keflavík með forystu 15-19. Hamar sótti stíft áfram í öðrum leikhluta og smám saman minnkuðu þeir muninn og náðu undir lok hálfleiksins að jafna leikinn 37-37. Keflavík fór þó með forskot í búningsklefann og staðan 39-43. Keflvíkingar komu öskrandi reiðir inn í seinni hálfleikinn og hefur ræða frá meistara Sigurði eflaust haft eitthvað að segja. Þeir komu forystunni upp í 20 stig og héldu ágætri fjarlægð út leikinn.
Lokatölur eins og fyrr segir 83-98.