Keflvíkingar náðu oddaleik
Keflvíkingar voru með bakið upp við vegg í gær þegar að þeir mættu Stjörnumönnum í annarri viðureign liðanna, en leikið var í Toyota Höllinni. Stjarnan leiddi í einvíginu 1-0, en 2 leiki þarf til þess að komast áfram í næst umferð. Það er óhætt að segja að spennustigið hafi verið hátt og allt í járnum út allan leikinn, en Keflvíkingar tóku flotta rispu á lokakafla leiksins sem tryggði þeim sigur 88-82.
Það var harka frá upphafsmínútum leiksins. Marvin límdi sig á Magga Gunnars og óíþróttamannslegar villur flugu á milli liða. Það var meira eldsneyti í Keflvíkingum í upphafi leiks og leiddu þeir með 9 í lok 1. leikhluta. Stjörnumenn börðust hins vegar eins og ljón og komu sterkir til baka. Þeir unnu upp forskotið og voru búnir að breyta stöðunni í 45-50 þegar hálfleiksflautan gall.
Seinni hálfleikur var magnaður og allt gjörsamlega í járnum. Menn drituðu 3ja eins og enginn væri morgundagurinn og Maggi Gunnars fékk óíþróttamannslega villu fyrir að reka olnbogann í Marvin og í kjölfarið lét Siggi þjálfari nokkur orð falla í garð dómsins og uppskar tæknivillu fyrir vikið. Allt ætlaði um koll að keyra í húsinu og brunaliðið mætt til að slökkva eldinn. Valur Orri kom með magnaðan þrist þegar tæp mínúta var eftir og Stjörnumenn náðu aldrei að koma til baka.
Tölfræði gærkvöldsins:
Keflavík: Charles Michael Parker 24/12 fráköst, Jarryd Cole 22/14 fráköst, Valur Orri Valsson 16/4 fráköst/6 stoðsendingar, Magnús Þór Gunnarsson 15/6 stoðsendingar, Halldór Örn Halldórsson 6, Almar Stefán Guðbrandsson 5, Guðmundur Auðunn Gunnarsson 0, Sigurður Friðrik Gunnarsson 0, Ragnar Gerald Albertsson 0, Andri Daníelsson 0, Hafliði Már Brynjarsson 0, Gunnar H. Stefánsson 0.
Stjarnan: Justin Shouse 20/8 fráköst, Marvin Valdimarsson 18/7 fráköst, Keith Cothran 14/4 fráköst, Jovan Zdravevski 11/7 fráköst, Renato Lindmets 9/8 fráköst, Sigurjón Örn Lárusson 4, Dagur Kár Jónsson 4, Fannar Freyr Helgason 2, Aron Kárason 0, Guðjón Lárusson 0, Sigurbjörn Ottó Björnsson 0, Magnús Bjarki Guðmundsson 0.
Cole gerði 22 stig (mynd: karfan.is)