Bikarmeistarar Stjörnunnar eru úr leik Subway-bikarsins, en Keflvíkingar sigruðu þá í Garðabænum fyrr í kvöld 76-97. Stjörnumenn spiluðu án Fannars Helgasonar, en Keflvíkingar nýttu sér það og spiluðu vel inn á stóru mennina. Keflvíkingar voru með forystu allan leikinn og létu Stjörnumenn aldrei setja leikinn í neina hættu fyrir sig. Í hvert sinn sem Stjörnumenn virtust líklegir til þess að komast aftur inn í leikinn, komu Keflvíkingar með mótsvar og voru duglegir að salla niður þristunum í andlit Stjörnumanna. Stjörnumenn leituðu mikið til Justin Shouse í leiknum, en því miður gat hann einn ekki bjargað þeim frá Keflvíkingum. Hann hitti einungis úr 3 af 11 þriggja stiga tilraunum og var það skarð fyrir skildi. Hjá Keflavík var Gunnar Einarsson stigahæstur með 27 stig, en Rahshon Clark og Sigurður Gunnar Þorsteinsson voru með 19 stig. Hjá Stjörnumönnum var Justin Shouse með 31 stig og á eftir honum kom Jovan Zdravevski með 20 stig.