Fréttir

Keflvíkingar taka á móti KFÍ í kvöld - Stutt viðtal við Ragnar Gerald Albertsson
Karfa: Karlar | 7. febrúar 2013

Keflvíkingar taka á móti KFÍ í kvöld - Stutt viðtal við Ragnar Gerald Albertsson

Keflavík mætir KFÍ í Domino´s deild karla í kvöld. Leikurinn hefst kl. 19.15 í Toyotahöllinni. Keflvíkingar hafa verið á miklu skriði á nýju ári og unnið alla leiki sína í deildinni, alla gegn liðum sem voru fyrir ofan þá í deildinni á þeim tíma. Nú mæta Keflvíkingar hins vegar liði sem er fyrir neðan þá í deildinni og því má velta því fyrir sér hvort leikmenn séu rétt stylltir fyrir leikinn. Ragnar Gerald Albertsson, leikmaður Keflavíkur, segir menn tilbúna í leikinn og vel stemmda, "Við erum búnir að æfa stíft í þessari viku og erum því tilbúnir í leikinn" 

Menn leggja væntanlega upp með sigur í þessum leik eins og öðrum en er ekki hætta á vanmati miðað við stöðu liðanna í deildinni?
Það er ekkert annað en sigur í boði í þessum leik en það er auðvitað ekkert vanmat. Þessi leikur er alveg jafn mikilvægur og allir hinir. Það er mjög mikilvægt að við náum þessum sigri því það er markmið okkar að ná toppsætinu og þetta er mikilvægur leikur til þess að það sé raunhæft.

Hlutverk þitt hefur verið að stækka í síðustu leikjum, ertu sáttur með þitt framlag hingað til?
Já, ég hef verið að fá fleiri mínútur og er mjög ánægður með það. Það er það sem allir vilja, fleiri mínútur. Ég hef átt nokkra góða leiki en í heildina væri ég til í að hjálpa liðinu meira sóknarlega.

Stuðningsmenn Keflavíkur hafa haft á orði að þið "ungu pjakkarnir" fáið stundum of lítinn tíma inn á í einu eða ykkur sé kippt útaf við fyrstu mistök, hvernig horfir þetta við þér?
Það er alltaf erfitt að vera ungur því maður á eftir að vinna sér inn allt það "respect" sem gömlu karlarnir hafa. Við verðum hins vegar að nýta tækifærin okkar, sama hversu lítil og smá þau eru. Ef við gerum það þá fara mínúturnar að verða fleiri. Ég held að við ungu strákarnir verðum aðeins að herða okkur og gera eitthvað við þessar mínútur sem við erum að fá.

Er raunhæft að setja markið á þann stóra í ár?
Það er alltaf markmiðið á meðan maður spilar fyrir Keflavík. Við höfum alla burði til þess að fara alla leið, við verðum bara að spila eins og menn og þá er þetta engin spurning.

Mynd: Karfan.is - Skúli "OldSchool" Sigurðsson