Keflvíkingar taka þátt í sterku móti í Svíþjóð næstu helgi
Karlalið Keflavíkur mun halda til Uppsala í Svíþjóð um næstu helgi þar sem liðið mun leika í gríðarlega sterku fjögurra liða móti sem ber nafnið "SEB USIF ARENA NORDIC CUP". Liðin í mótinu eru ásamt Keflavík, heimamenn í Uppsala Basket, finnska liðið Nilan Bisons og Íslendingaliðið Sundsvall Dragons en með því liði leika landsliðsmennirnir Jakob Örn Sigurðsson, Hlynur Bæringsson og Ægir Þór Steinarsson.
Einstaklingur á vegum Uppsala Basket hitti Andy Johnston þjálfara Keflavíkur í New York í sumar og í kjölfarið var Keflvíkingum boðin þátttaka í þessu sterka móti. Svo kann að fara að hægt verði að fylgjast með leikjunum á veraldarvefnum og mun heimasíða Keflavíkur greina frá því ef svo verður.