"Kemur ekki til greina að vera hræddur" - Stutt viðtal við Eystein
Eysteinn Bjarni Ævarsson er nýliði í Keflavíkurliðinu en hann kom til liðsins frá Hetti á Egilstöðum fyrir tímabilið ásamt vini sinum Andrési Kristleifssyni. Þeir félagar hafa verið að koma meira og meira inn í leik liðsins á undanförnum vikum og ljóst að björt framtíð bíður þeirra í búningi Keflavíkurliðsins haldi þeir rétt á spöðunum. Heimasíða Keflavíkur heyrði hljóðið í Eysteini í hádeginu í dag og spurði hann út í komandi leiki við Haukana í 8-liða úrslitum Domino´s deildar karla.
Hvernig eru menn gíraðir fyrir úrslitakeppni?
Ég er mjög vel stemdur fyrir úrslitakeppninni og hlakka mjög mikið til.
Er stemmning í hópnum?
Stemmningin í hópnum er virkilega góð og við ætlum okkur langt saman.
Nú er þetta þín fyrsta úrslitakeppni í efstu deild hvernig er sú tilfinning?
Hún er virkilega góð. Maður hefur beðið eftir því að taka þátt í henni lengi. Auðvitað er smá fiðringur líka en það kemur ekki til greina að vera eitthvað hræddur.
Erum við að fara að vinna Haukana og hvað er það sem við þurfum helst að leggja áherslu?
Auðvitað ætlum við að vinna Haukana en við þurfum að standa vel saman í vörninni og spila saman sem lið. Þeir eru mjög hættulegir niðri á blokkinni þegar útlendingurinn þeirra fær boltann og hann „drive'ar“ sterkt að körfunni og þeir spila mjög vel saman. Ef við mætum brjálaðir til leiks og tilbúnir eigum við góða möguleika.
Hversu langt telur þú að liðið geta farið?
Ég tel að þetta lið geti farið alla leið og það er markmið liðsins.