Keflavíkur-stúlkur mættu KR-stúlkum í gærkvöldi í Toyota Höllinni. Leikurinn byrjaði af krafti og voru það KR-stúlkur sem höfðu yfirhöndina þegar líða fór á leikhlutann. Keflavíkur-stúlkur voru þó ekki á því að gefast upp og öskruðu hvor aðra áfram, sem leiddi til þess að þær voru alltaf fast á hælum KR-stúlkna. Annar leikhluti var kröftugur, en þó áttu bæði lið í mesta basli við að koma boltanum ofan í körfuna. Á lokamínútum gáfu KR-stúlkur í og leiddu þær fyrri hálfleik 30-36. Í byrjun seinni hálfleiks fór að síga á ógæfuhliðina hjá Keflavíkur-stúlkum og fljótlega sást að þær voru ekki að skila sínu. Keflavíkur-stúlkur skoruðu sína fyrstu körfu þegar 3 mínútur lifðu af 3ja leikhluta, en þegar leikhlutanum lauk; þá leiddu KR-stúlkur 35-51. Síðasti leikhluti var með svipuðu sniði; Keflavíkur-stúlkur misstu ítrekað boltann á vellinum, vissu ekkert hvað þær áttu að vera að gera í sókninni og lykilmenn voru langt frá því að skila einhverju markvissu í sínu spili. Einnig voru varnarfráköst algjörlega til skammar hjá Keflavíkur-stúlkum, en sem dæmi náðu KR-stúlkur 6 sóknarfráköstum í sömu sókninni. Leiknum lauk með sigri KR-stúlkna; 46-62. Keflavíkur-stúlkur geta verið þakklátar fyrir það að boltinn rataði mjög illa ofan í körfuna hjá KR-stúlkum í leiknum. Hjá Keflavík var Viola Beybeyah með 26 stig en á eftir henni kom Bryndís Guðmundsdóttir með 7 stig, en hún hafði nýverið fengið leikheimild með Keflavík. Hjá KR voru Hildur Sigurðardóttir og Margrét Kara Sturludóttir báðar með 13 stig. Næsti leikur er gegn Njarðvík þann 4. nóvember.