Fréttir

Karfa: Hitt og Þetta | 13. janúar 2010

Körfuboltaveisla framundan!

Það verður sannkölluð körfuboltaveisla sem háð verður í Keflavík á næstu dögum, en 3 leikir fara fram í Toyota Höllinni á fjórum dögum. Þetta er eitthvað sem ekkert mannsbarn á Suðurnesjum má láta framhjá sér fara og ákaflega mikilvægt að styðja við bakið á liðunum um þessar mundir.

Á föstudaginn (15. jan) mætir Keflavík Stjörnunni í Toyota Höllinni, en leikurinn hefst klukkan 19:15. Stjörnumenn tróna á toppi deildarinnar um þessar mundir, en þeir hafa þó einungis eins leiks forskot á Keflavík. Þar af leiðandi er þetta ákaflega mikilvægur leikur fyrir bæði lið, og sérstaklega fyrir Keflavík ef þeir ætla sér að verma toppsæti deildarinnar þegar tímabilinu lýkur.

Á sunnudaginn (17. jan) mæta Keflavíkur-stúlkur Hamars-stúlkum í 8-liða úrslitum Subway-bikarkeppninnar. Leikurinn verður háður í Toyota Höllinni og hefst hann klukkan 19:15. Þessi tvö lið hafa spilað tvívegis innbyrðis í deildinni í vetur, en Hamars-stúlkur höfðu betur í fyrri viðureigninni og Keflavíkur-stúlkur í seinni.

Á mánudaginn (18. jan) er án efa leikur ársins. Þá mæta Njarðvíkingar í Toyota Höllina og spila gegn erkifjendum sínum í Keflavík. Þetta munu einnig vera 8-liða úrslit Subway-bikarkeppninnar og því er að duga eða drepast fyrir bæði lið. Þess má geta að bæði lið hafa styrkt sig á þessu ári með erlendum leikmanni, en Keflvíkingar fengu Draelon Burns og Njarðvíkingar Nick Bradford. Það verður allt vitlaust í höllinni og allir hvattir til að láta þennan stórviðburð ársins í íslenskum Körfuknattleik ekki framhjá sér fara!

Við viljum árétta að VILDARVINAKORT KÖRFUKNATTLEIKSDEILDAR KEFLAVÍKUR GILDA EKKI Á BIKARLEIKINA.

 

ÁFRAM KEFLAVÍK!