KR í úrslit
Keflvíkingar eru komnir í sumarfrí eftir 105-89 tap í kvöld gegn KR.
Keflvíkingar byrjuðu leikinn af krafti og leiddu 1. leikhluta 23-30 þegar flautan gall. Svo virtist allt smella í baklás og KR-ingar tóku öll völd á vellinum. Þeir unnu 2. leikhluta 32-12 og Keflvíkingar sáu í raun aldrei til sólar eftir það.
Thomas Sanders lét skapið hlaupa með sig í gönur þegar um 2 mínútur lifðu leiks. Brynjar Þór braut harkalega á honum í hraðaupphlaupi og uppskar ásetning. Thomas Sanders átti erfitt með að hemja sig og hjólaði beint í hann, sem endaði með því að hann flaug í gólfið og hreinsaði skilti með sér. Sanders réttilega rekinn úr húsi og ljót framkoma hjá pilt sem er ekkert nema prúðmennskan uppmáluð utan vallar, það geta allir sem hafa spjallað við hann vottað.
Þá er ekkert eftir nema að landa Íslandsmeistaratitli í kvennaflokki. Stelpurnar eiga heimaleik við Njarðvík í kvöld og er það leikur nr. 3. Með sigri geta Keflavíkurstúlkur tryggt sér titilinn og eru allir hvattir til að láta sjá sig og styðja við stelpurnar.
Stig KR: Brynjar Þór Björnsson 34, Marcus Walker 27, Pavel Ermolinskij 18 (13 frák./7 stoðs.), Skarphéðinn Freyr Ingason 11, Hreggviður Magnússon 7, Jón Orri Kristjánsson 3, Finnur Atli Magnússon 2, Fannar Ólafsson 2 (12 frák.), Matthías Orri Sigurðarson 1.
Stig Keflavíkur: Thomas Sanders 26, Andrija Ciric 20, Hörður Axel Vilhjálmsson 13 (7 stoðs.), Gunnar Einarsson 12, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 10 (9 frák.), Magnús Þór Gunnarsson 8.