Fréttir

Karfa: Konur | 19. mars 2011

KR-stúlkur lagðar að velli - Keflavík leiðir 1-0

Fyrsti leikur í 4-liða úrslitum Iceland Express deild kvenna var háður í Toyota Höllinni í dag, en þá mættu KR-stúlkur í heimsókn. Margrét Kara Sturludóttir var ekki með KR, en hún er um þessar mundir að taka út leikbann. Leikurinn var æsispennandi og réðust úrslitin ekki fyrr en á lokasekúndum leiksins. Lokatölur leiks voru 63-60 og þar með tóku Keflavíkurstúlkur forystu í einvíginu 1-0.

KR byrjaði af miklum krafti og komst í 2-11 eftir einungis 2 mínútna leik. Keflavíkurstúlkur voru rótlausar í sóknarleiknum og leyfðu KR að halda forystu rétt undir 10 stigum jafnt og þétt þangað til um 4 mínútur voru eftir af hálfleiknum. Þá hrökk Keflavík í gang og náði að jafna leikinn á lokasekúndunum. Staðan í hálfleik var 32-32.

Í 3. leikhluta voru KR-stúlkur grimmari og héldu forystu út leikhlutann. Í 4. leikhluta var að duga eða drepast og Keflavík ætlaði ekki að gefa leikinn frá sér. Með herkju tókst þeim að komast yfir þegar um 5 mínútur lifðu leiks. Með öguðum varnarleik tókst þeim að halda forystunni í leiknum og landa sigri 63-60.

Jacqueline Adamshick skoraði 15 stig og hirti 22 fráköst, hvorki meira né minna. Pálína Gunnlaugsdóttir skoraði 15 stig, Bryndís Guðmundsdóttir 13 og Birna Valgarðsdóttir 10.

Keflavík komið í 1-0 í einvíginu og næsti leikur í Vesturbænum á þriðjudaginn næstkomandi. Hvetjum alla til að láta sjá sig.

Áfram Keflavík!

 

 
 Pálína í harðri baráttu í dag (mynd: karfan.is)