Fréttir

Karfa: Konur | 10. janúar 2010

Kristi Smith afgreiddi Njarðvík

Keflavíkur-stúlkur lögðu Njarðvíkur-stúlkur í dag með sannfærandi hætti. Lokatölur leiksins voru 86-64 fyrir Keflavík. Leikurinn byrjaði skelfilega fyrir Keflavík, en Njarðvík náði 9 stiga mun eftir 5 mínútna leik, 7-16. Þá hrökk mótorinn í gang hjá Keflavík og tóku þær ótrúlega rispu, en þegar fyrsti leikhluti var yfirstaðinn, þá var staðan 24-18 fyrir Keflavík. Eftir þetta hélt Keflavík góðri forystu og leyfðu þær Njarðvík aldrei að komast almennilega inn í leikinn, en Njarðvík náði mest að minnka muninn í 3 stig í öðrum leikhluta. Lokatölur leiks voru sem fyrr segir 86-64 fyrir Keflavík. Mestu munaði um stórleik Kristi Smith, en hún skoraði 37 stig fyrir Keflavík. Hún hitti úr 14 af 17 2ja stiga skotum sínum og verður það að teljast mjög góð nýting. Á eftir Kristi í stigaskori kom Bryndís Guðmundsdóttir með 11 stig. Hjá Njarðvík átti Shantrell Moss góðan leik og skoraði hún 30 stig, en á eftir henni kom Ólöf Helga Pálsdóttir með 16 stig.

Sanngjarn sigur hjá Keflavík og góð byrjun á nýju ári. Með sigrinum sitja Keflavíkur-stúlkur ennþá í 4. sæti, en hafa núna 12 stig. Grindavík og Hamar eru með 16 stig og KR með yfirburði í efsta sæti með 24 stig, en þær hafa ekki tapað leik í deildinni í vetur.