Fréttir

Karfa: Konur | 19. mars 2010

Kristi Smith hetja Keflavíkurstúlkna

Keflavíkurstúlkur lögðu Hamarsstúlkur í Hveragerði í kvöld, en leikurinn var í algjörum járnum og æsispennandi á lokamínútunum. Framlengingu þurfti til að knýja fram úrslitin, en lokatölur leiksins voru 101-103 fyrir Keflavík. Hamarsstúlkur náðu að komast yfir 101-100 þegar 12 sekúndur voru eftir af framlengingunni. Keflavíkurstúlkur brunuðu upp völlinn og barst boltinn á Kristi Smith sem smurði eina gullfallega þriggja stiga körfu, en þá voru einungis 4 sekúndur eftir af leiknum. Hamarsstúlkur gerðu tilraun til að taka eina sókn í viðbót en hún fór forgörðum. Ótrúlegur leikur og Keflavíkurstúlkur komnar yfir í einvíginu 2-1.

Atkvæðamest hjá Keflavík var Kristi Smith með 26 stig, en Birna Valgarðsdóttir skoraði 25 stig og tók 12 fráköst. Hjá Hamar var Julia Dermier með enn einn stórleikinn, en hún skoraði 39 stig og tók 13 fráköst. Koren Schram var langt á eftir henni með 14 stig.