Fréttir

Körfubolti | 6. janúar 2003

Kvennaliðið vann 72ja stiga sigur gegn kanalausum Grindvíkingum

Menn vissu jú að Kaninn í kvennaliði Grindavíkur léki þar stórt hlutverk, en á þessu áttu kannski ekki margir von. Grindavík er í öðru sæti deildarinnar og maður hefði getað reiknað með kannski 20-30 stiga frekar öruggum sigri Keflavíkur. En það sem gerðist á laugardaginn átti ekkert skylt við toppslag, heldur var eingöngu um sýningu á yfirburðum Keflavíkur að ræða. Eftir fyrsta leikhluta var munurinn 17 stig, 24-7 og síðan hélt einstefnan áfram allan leikinn sem endaði með 72ja stiga heimasigri, 105-33. Keflavíkurliðið leysti þetta skylduverkefni sómasamlega af hendi og fékk aldrei neina mótspyrnu allan leikinn. Hreint ótrúlegir yfirburðir Keflavíkurstúlkna. Allar stúlkurnar fengu að spreyta sig og allar skoruðu a.m.k. tvær körfur.

Keflavíkurliðið sýnir engan bilbug á sér og leikurinn í gær var 16. sigurleikurinn í röð á þessari leiktíð. Næst á dagskrá er bikarleikur gegn B-liði Kef og síðan útileikur gegn ÍS í deildinni. Aðalspennan á næstu dögum felst hins vegar í því að sjá hvort KR-Kaninn nái að lyfta Vesturbæjarstúlkum upp á hærra plan.