Landsliðsmennirnir Gunnar Einarsson og Jón N Hafsteinsson semja til tveggja ára við Keflavík sem verður vel mannað í haust
Nýkjörin stjórn körfuknattleikdeildar Keflavíkur hefur ekki setið auðum höndum frá stjórnarkjöri. Fyrst var gengið til áframhaldandi samstarfs við þjálfarann farsæla Sigurð Ingimundarson og síðan var hugað að leikmannamálum fyrir næsta haust.
Landsliðsmennirnir og framherjarnir Gunnar Einarsson og Jón N Hafsteinsson munu leika með Keflavík næstu tvö árin og er það sérlega ánægjulegt, því ekki eru of margir leikmenn hér í bæ sem kallast geta framherjar :).
|
|
Gunnar |
Jón |
Bakvarðasveitin verður fönguleg að vanda. Falur Harðarson, Davíð Jónsson, Hjörtur Harðarson, Magnús Gunnarson, Sverrir Þór Sverrisson og Gunnar Stefánsson hyggjast allir leika með Keflavík í haust.
Falur, aldursforseti sveitarinnar, hefur gefið það út að næsta leiktíð verði hans síðasta. Sverrir ætlar að sparka bolta í sumar, svona rétt til að halda sér í formi, en mætir á æfingar í toppformi í haust, að vanda. Magnús er reyndar ekki alveg pottþéttur enn, hann ætlar að íhuga möguleika til náms í Bandaríkjunum fyrst, en við væntum þess að hans mál skýrist innan fárra vikna.
Framherjinn Sævar Sævarsson og framtíðar miðherjinn Halldór Halldórsson ætla báðir að leika með Keflavík í haust. Þeir hafa hingað til ekki fengið mörg tækifæri með aðalliðinu, en það gæti breyst í haust, enda stóðu þeir sig báðir sérlega vel í úrslitakeppnum með sínum flokkum í vor.
Eins og sjá má eru ekki miklar breytingar í vændum hjá Íslandsmeistururnum. Þó leggur Guðjón Skúlason skóna á hilluna eins og fram hefur komið og Arnar Freyr Jónsson heldur til Ameríku, en í stað þeirra bætist Hjörtur Harðarson aftur í hópinn.
Auk þessarra tíu leikmanna munu efnilegir piltar koma upp úr yngri flokkunum til að stækka leikmannahópinn. Síðan mun, líkt og venjulega, sérlega lipur og flinkur Kani bætast í hópinn í september. Með þessa öflugu hersveit vonast Keflavík eftir því að geta gert öðrum félögum erfitt um vik að taka bikarana eftirsóttu sem nú eru í okkar vörslu.