Fréttir

Karfa: Karlar | 25. janúar 2011

Lazar Trifunovic hættur með Keflavík

Lazar Trifunovic hefur ákveðið eftir margra daga ígrundun að yfirgefa herbúðir Keflvíkinga. Meiðsli hans á ökkla voru verri en talið var í fyrstu og er staðan í dag einfaldlega þannig að hann treystir sér ekki til að spila á næstu vikum. Stjórn Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur óskar honum velfarnaðar á ferlinum.

Það er óhætt að segja að brotthvarf hans úr Keflavíkurliðinu sé skarð fyrir skildi. Lazar hefur spilað 7 leiki fyrir Keflavík í deildinni á þessu tímabili. Í þessum 7 leikjum sínum hefur hann skorað 25 stig og hirt 11 fráköst að meðaltali. Hæst var stigaskor hans í leik gegn Fjölni, en þar skoraði kappinn 36 stig. Hann var einnig valin maður Stjörnuleiks KKÍ á dögunum, sem segir margt um spilamennskuna hjá þessum strák.

Lukkan hefur ekki verið með Keflavík á þessu tímabili í útlendingamálum, en Valentino Maxwell meiddist einmitt fljótlega eftir komuna hingað til lands. Honum var gefið tækifæri á að jafna sig á meiðslum sínum, en náði aldrei fyrra formi. Við vonum þó innilega að þetta sé yfirstaðið og eins og sagt er: Fall er fararheill.

Áfram Keflavík!