Leikgleði og góð stemming á Árgangamótinu
Laugardaginn 15. okt. fór fram árgangamót Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur 2011. Þessi uppákoma er nýung hér sem er komin til að vera enda um stórskemmtilegan viðburð að ræða sem kryddar stemninguna fyrir veturinn. Mótið hófst klukkan 16.00 og voru um fjörutíu einstaklingar mættu til leiks sem deildust niður á sjö lið. Sumir árgangarnir voru fjölmennir eins og ´75 og ´81 árgangurinn. Fjórir leikmenn voru í hvoru liði og voru það leikmenn mfl. karla í Keflavík sem fengu það verðuga verkefni að dæma leikina sem voru oft ansi fjörugir og mikið um glæsileg tilþrif.
´75 liðið fór taplaust í gegnum forkeppnina. Sverrir Þór Sverrisson var á útopnu um allan völl sem aldrei fyrr. Sprenglært fólk með einstaka ályktunarhæfileika hefði sennilega verið búið að stútfylla manninn af rítalíni fyrir löngu síðan hefði það verið til í hér í denn. Sverrir á ennþá fjögur góð ár eftir í efstu deild körfuboltans. Snorri, Unnar, Gaui Gylfa, Hemmi skó og fleiri hjálpuðu svo dyggilega við að koma liðinu í úrslitaleikinn. Þór Jóhannesson hvatti liðið að kappi á endalínunni í anda Stefáns Arnarssonar.
´81 liðið sem þótti sigurstanglegast fyrirfram, skartaði vænum skammti af gulldrengjum Jóns Guðbrandssonar auk aðkeypts sendirherra KR inga, Svenna Blöndal. Það fór því kliður um salinn þegar ´75 liðið sigraði þá og efasemdaraddir tóku að óma í hugum áhorfenda sem troðfylltu Toyotahöllina. Er Sævar ófrískur ? og hvað er þessi Elvis eftirherma að gera í körfuboltabúningi. Þegar Sjabbi fór svo að sulla niður þristum og Hákon sleit niður fráköstin af stakri snilld snarþögnuðu efsemdapúkarnir. Sæmi, Jonni, Davíð skoruðu að vild og Svenni Blöndal misnotaði varla skot. Þessir strákar eiga allir að vera spila í efstu deild.
Ungpungarnir í ´86 og ´88 voru pínu feimnir í fyrstu og skildu lítið af glímutökum Alla Óskars og Sigga Ingmundar sem brúkuðu öll fornbrögðin í bókinni til að krækja í körfu. Dabbi Óskars var sleipur sem og Helgi „Biff“ Arason sem virkaði á köflum einsog skógarbjörn í dvala en spratt svo úr hýðinu með látum og skoraði nettar körfur. Dabbi Sveins var öflugur í gegnumbrotum. Kalli, Hinni Óskars, Eyþór P, Pálmi Ketils og Garðar Scorsese áttu allir flott tilþrif sem tekið var eftir. Gummi Auðuns fékk samt hæstu einkunina í gæðaflokki trippanna, kominn tími til að hann spýti pínu í spaðana og láti finna fyrir sér á meðal þeirra bestu.
´69 liðið var gríðarlega vel mannað. Einar Einars, Anna María Sveins (eina stúlkan sem þorði að mæta og svo heimta þessar elskur jafnrétti en hafa engan pung þegar á reynir J ), Eggert Hannah mætti með Rólex sem var nokkrum grömmum þyngra en hann sjálfur. Kappinn sýndi hörku tilþrif, þótt hann hafi aldrei æft íþróttina og bara stuðst við gamlar spólur af Helga Hólm sér til glöggvunar. Blokkið á Jóni „Big Ben“ Einarssyni sýndi svo ekki verður um villst að Eggert er varnamaður af guðs náð. Svo til að yngja og beturmbæta þessa stórfínu blöndu voru Elli Margeirs, Skúli T og Pétur Guðmundsson „styttri“ keyptir til liðsins á metfé. Þessi góðu kaup skiluðu liðinu þriðja sæti á mótinu.
Gömlu brýnin í ´65 og ´66 komu einna mest á óvart í mótinu. Spiluðu af mikilli hörku og þrákelkni allt frá upphafi til enda. Ekki alveg eins hávaxnir né sperrtir eins og fyrir tíu árum en seiglan og eljan með fádæmum aðdáunarverð. Formaðurinn tindilfætti Gunni Jó. tætti í sig fráköstin. Jón „Big Ben“ Einarsson eins og dverg útgáfa af kínamúrnum var nánast ókleyfur fyrir andstæðinga sem flestir hrundu af kappanum. Fyrir framan þá dönsuðu Óli rafvirki og Máni tanni trylltan dans og hvað eftir annað datt manni í hug myndskeið úr Gaukshreiðrinu sáluga, eða var maður staddur í „the twilight zone“. Sníperinn Gaui Skúla var svo fenginn til að skora fyrir piltana og karlinn bara nokkuð duglegur að munda vélbyssuna sem klikkaði ekki frekar en fyrri daginn. ´66 sveinarnir, Matti Ósvald, Siggi Ingimundar, Sigurþór Þórarins voru klárlega eftirtekarverðasta lið mótsins. Þeir fengu Albert Óskarsson í vöggugjöf rétt fyrir mót og barnið úr ´68 árgagninum lét svo sannarlega finna fyrir sér og enn meira í sér heyra þegar líða fór á mótið, og líkamshitinn aðeins kominn yfir það sem telst notalegt. Sigurþór skaut fyrir utan og það sem geygaði hirtu Siggi, Matti og Alli eða Matti, Kalli og Jonni og kláruðu.
Úrslitaleikurinn fór fram á aðalvellinum og var leiktíminn lengdur um tvær mínútur. Til úrslita léku ´75 og ´81. Fljótlega náðu ´81 forystu og héldu henni með yfirveguðum og fáguðum leik allt til síðustu sekúndu. Þrátt fyrir hetjulega og vasklega framgöngu ´75 manna var fjallið númeri of stórt að þessu sinni. Gulldrengir Jóns Guðbrands fögnuðu sigri og stigu trylltan dans í leikslok.
Bestu menn mótsins voru Sæmundur Oddsson og Sverrir Þór Sverrisson. Algjör synd að Sæmi skildi velja Hippókrates og hlustunarpípuna fram yfir James Naismith og körfuboltann.
Bestu tilþrif mótisns átti Matti Ósvald. Í þrígang stalst hann í smiðju James Worthy og skildi varnamenn eftir gáttaða af eigin getuleysi til að verjast þessum svellköldu hreyfingum kappans.
Í heildina heppnaðist mótið mjög vel enda menn mættir til að skemmta sér, efla félagasandann og styðja við sitt félag. Næsta ár viljum við fá hundrað manns til að mæta . Hvað er betra en að spila körfubolta, hitta vini og félaga og styðja Keflavík.
Þakkir fyrir aðstoð við mótshaldið fá leikmenn mfl. karla og stjórnamenn KKDK.
Sérstakar þakkir fá Svana og Gunni í íþóttahúsinu á Sunnubraut. Algjört fagfólk þar á ferð sem aðstoðaði okkur í hvívetna.
Kveðja TT