Fréttir

Körfubolti | 18. mars 2007

Leiktíðinni lokið hjá meistaraflokki karla, en fjörið rétt að byrja hjá stúlkunum

Í gær lék meistaraflokkur karla sinn síðasta leik á þessari leiktíð. Vængbrotið lið okkar manna lék af krafti og áræðni en það dugði ekki gegn sterkum gestum frá Stykkishólmi. Snæfellingar eru vel að sigrinum komnir og við óskum þeim til hamingju með það.

Áföll Keflvíkinga hafa verið töluverð og fyrir leikinn í gær jukust enn vandræðin. Jón Norðdal meiddist í fyrsta leiknum og þrátt fyrir góðan vilja gat hann einungis leikið fyrstu  tvær mínúturnar í leiknum í gær. Tony Harris hafði verið á batavegi, en treysti sér ekki til að leika. Þegar við bætast meiðsli Arnars Freys, var ljóst að úr vöndu væri að ráða.

En Keflvíkingar byrjuðu engu að síður vel undir forystu Sverris Þórs sem átti líklega sinn besta leik á leiktíðinni, skoraði m.a. 22 stig, þar af 19 í fyrri hálfleik. Meðan að skotin utan að velli voru að detta hélt Keflavík sér inni í leiknum, en erfiðlega gekk að stöðva hávaxna og skynsama Hólmara hinu megin á vellinum.

Í hálfleik var staðan 50-46 fyrir gestina en þá kom Jón Ólafur Jónsson inná og skoraði 14 stig á skömmum tíma. Fyrir hans tilstilli náðu Snæfellingar forystu sem dugði út leikinn sem endaði 103-89.

Okkar menn börðust en áttu við ofurefli að etja í þetta skiptið. Sverrir var fánaberinn og Gunni og Maggi reyndu mikið en hefðu þurft á stjörnuleik að halda til að hafa sigur. Þröstur Leó átti prýðilega innkomu og verður gaman að fylgjast með honum á næstu leiktíð.

Með þessum leik lauk frekar slöku ári á okkar mælikvarða, þó einn titill hafi unnist, Powerade-bikarinn í haust. Útlendingavandræði og meiðsli hafa öðru frekar einkennt veturinn og því er árangurinn frekar rýr í þetta skiptið. Ef stóri titilinn á að vinnast þá þarf allt að ganga upp, eins og við vitum, og eitt mikilvægasta atriðið í því sambandi er mikill stöðugleiki og sterk liðsheild. Því var ekki að heilsa nú, því miður.

En eigi þýðir að gráta Björn bónda heldur safna liði og það munu Keflvíkingar gera nú líkt og áður þegar liðið hefur lent í svipaðri stöðu. Við þökkum leikmönnum og stuðningsmönnum fyrir veturinn og tökum nú óspart við að vinna að betri tíð með blóm í haga.

En leiktíðin er enn í fullu fjöri hjá stúlkunum og þær hafa alla möguleika á að blanda sér verulega í baráttuna um Íslandsmeistaratitilinn. Í næstu viku hefst spennandi úrslitakeppni þar sem andstæðingar okkar verða Grindvíkingar í undanúrslitum. Hörku fjör framundan og vonandi munu stuðningsmenn okkar flykkja sér á bakvið stúlkurnar og hvetja þær til dáða í þeirri rimmu.

ÁFRAM KEFLAVÍK!