Leikur þrjú - smá hugleiðing
Nú hafa áhorfendur séð eina ferðina enn hvernig úrslit geta sveiflast til í úrslitakeppni. Keflavík og Njarðvík virtust hafa þó nokkra yfirburði eftir fyrstu leikina, en svo komu Skallar og KR-ingar og núllstilltu jöfnuna. Bara gaman. Á morgun er þriðji leikurinn hjá Keflavík og Sköllum og rétt að rýna aðeins í fyrstu tvo leikina og spá í spilin fyrir morgundaginn.
Í hugleiðingu eftir fyrsta leikinn, þá kom fram að betra væri að láta Byrd malla þetta 25-30 stig heldur en að gefa þriggja stiga skyttum Skallanna lausan tauminn. Verst er þó að gera ekki neitt! Í leik nr. tvö ákváðu Keflvíkingar að prófa að spila enga vörn en eins og fróðir menn vita skilar slíkt yfirleitt ekki góðum árangri. Byrd fékk að malla sín stig en þar fyrir utan fengu skytturnar að skjóta í rólegheitum og það nýttu þær sér vel, setti 16 þrista niður. Kannski menn prófi aftur vörn á morgun. Samt sást í leik nr. tvö það sem þegar hefur verið sagt, Skallar gera tvennt vel, í fyrsta lagi nota Byrd í teignum og í öðru lagi skjóta þristum. Það þarf að stöðva annað hvort, þá vinnur Kef.
Sóknarlega eru Kefarar ekki almennilega búnir að finna taktinn ennþá. AJ og Maggi eru sprækir, en sérstaklega eru allt of miklar sveiflur á "stóru" mönnunum okkar, Jonna, Vlad og Dóra. Í fyrsta leiknum skoruðu þeir samtals 35 stig og en í Borgarnesi aðeins 8. Þetta er lélegt og þessir ágætu menn þurfa að mæta með skorglampann í augunum í næstu leikjum, láta Byrd leika vörn, því það er með hann eins og marg aðra, ekki í miklu uppáhaldi.
Allt getur gerst, þegar tvö góð lið etja kappi, svo mikið er víst. Við treystum á spræka og ákveðna Keflavíkurhraðlest á morgun!
ÁFRAM KEFLAVÍK!