Lélegur varnarleikur varð Keflvíkurliðinu að falli í Njarðvík
Keflavík tapaði sínum öðrum leik í Iceland Express-deildinni þegar þeir mættu Njarðvík í ljónagryfjunni í gær, 108-84. Leikurinn fór fjörlega af stað og allt stefndi í hörku leik upp á gamla mátann. Vörnin hjá Keflavík var mjög góð í byrjun leiks og Njarðvíkingar taka mikið að ótímabærum skotum fyrir utan.
Staðan eftir fyrsta leikhluta var 16-24 fyrir okkar menn og ekki annað að sjá að Keflavík ætlaði sér að berjast og vera með í leiknum að þessu sinni. Þessi byrjun var því miður eini góði kafli liðsins í leiknum og léleg vörn eða réttara sagt engin vörn það sem eftir lifði leiks. Staðan í hálfleik var 54-45. Njarðvíkingar fengu að leika sér eins og þeir vildu fyrir utan línuna og settu niður alls 16 þriggja stiga körfur í leiknum. Þar fór fremstur í flokki Guðmundur Jónsson sem átti góðan leik og setti niður 17 stig í þriðja leikhluta.
Bestu menn Keflavíkur voru Arnar Freyr og Halldór Örn sem spiluðu vel á köflum. AJ átti ágætan leik en gerði þau mistök að láta Halldór Karlsson fara í taugarnar á sér og trufla sinn leik. Gaman var að sjá Guðjón Skúlasson mæta aftur til leiks og gott hafa slíkan reynslubolta klárann á bekknum.
Heimasíða þeirra Njarðvíkinga settur upp fyrirsögnina '' Íslandsmeistarar niðurlægðir''. Kannski rétt en minnum samt á að það er bara hálfleikur í deildinni og mikið eftir enn. En það verður ekki tekið af Njarðvíkurliðinu að þeir spiluðu mjög vel í gær og voru betri á flestum sviðum körfuboltans.
Keflavíkurliðið á mikið inni og nú er málið að hella sér á fullu út í baráttuna um að halda Íslandsbikarnum í Keflavík fjórða árið í röð. Evrópukeppnin er búin í bili og við tekur leikir í deild og bikar. Einn leikmann vantar enn í liðið og er von á að þau mál skýrist strax í byrjun árs.
Stighæstur í gær: AJ 25 stig og 15 fráköst, Arnar Freyr 19 stig ( 3/4 þristar ), Maggi 12 stig, Halldór Örn 9 stig og Jonni 8 stig.
Næsti leikur liðsins er á móti ÍR á heimavelli okkar fimmtudaginn 5. jan.
Arnar Freyr skoraði 19 stig í gær.