Fréttir

Lengjubikar kvenna hefst í kvöld með nágrannaslag
Karfa: Konur | 9. september 2012

Lengjubikar kvenna hefst í kvöld með nágrannaslag

 

Nú þegar undirbúningstímabil körfuknattleiksmanna og kvenna er komið á fulla ferð fara fyrstu mótin að hefja göngu sína.

Lengjubikar kvenna hefst í kvöld með stórleik í B-riðli keppninnar þegar Íslands- og bikarmeistarar Njarðvíkur heimsækja Toyotahöllina og verður fróðlegt að sjá hvernig liðin koma undan sumri. Bæði lið verða líklega án erlendra leikmanna í kvöld, a.m.k. lið Keflavíkur sem mun kynna erlendan leikmann til leiks á næstu dögum. 

Sem kunnugt er þá hefur Sigurður Ingimundarson tekið við stýrinu hjá liðinu og verður mættur á bekkinn í kvöld eftir langt hlé frá kvennaboltanum.  Honum til aðstoðar í vetur verða þær Erla Reynisdóttir og Marín Rós Karlsdóttir.

Keflavíkurliðið er nokkuð breytt frá fyrra ári en eftirfarandi leikmenn eru horfnir á  á braut:

Ingibjörg Jakobsdóttir til Danmerkur, Lovísa Falsdóttir til USA sem skiptinemi, Marín Rós Karlsdóttir hætt, Helga Hallgrímsdóttir til UMFG, Hrund Jóhannsdóttir til Fjölnis og Sigrún Albertsdóttir er hætt.

Keflavíkurstúlkur hafa þó endurheimt sterka leikmenn til baka en Bryndís Guðmundsdóttir er komin heim eftir ársdvöl í Vesturbænum, Ingunn Embla Kristínardóttir eftir ársdvöl í körfuboltaakademíu Geof Kotila í Danmörku og María Ben Jónsdóttir er komin á fulla ferð eftir krossbandaslit og dvöl sem skiptinemi í Michigan. Fyrir utan reynsluboltana þær Pálínu, Birnu og Bryndísi, þá er afgangurinn af liðinu undir tvítugu en engu að síður orðinn nokkuð reyndur sé miðað við aldur og fyrri árangur.

Leikjadagskrá Keflavíkurstúlkna í Lengubikarnum (b-riðli);

Sun. 9. sept. Keflavík - Njarðvík kl. 19.15 - Toyotahöllin

Fim. 13. sept. Stjarnan - Keflavík kl. 19.15 Ásgarður

Mið. 19. sept. Keflavík - KR kl. 19.15 - Toyotahöllin

Lau. 22. sept. Grindavík - Keflavík kl. 16.30 Röstin

Fim. 27. sept. Sigurlið A riðils - Sigurlið B riðils