Fréttir

Karfa: Karlar | 19. apríl 2010

Líkleg byrjunarlið í kvöld kl.19.15

Keflavík: Hörður Axel Vilhjálmsson, Draelon Burns, Gunnar Einarsson, Urule Iagbova og Sigurður Gunnar Þorsteinsson.

 
Snæfell: Sean Burton, Emil Þór Jóhannsson, Sigurður Á. Þorvaldsson, Jón Ólafur Jónsson og Hlynur Bæringsson.
 
Maður á mann:
 
Sean Burton leikstjórnandi Snæfells er engum líkur þegar hann dettur í ham og getur splæst í þrista á færiböndum. Í seríunni gegn KR gerði Morgan Lewis vel gegn honum og Burton fékk fá ,,look“ á körfuna. Keflvíkingar reyna eflaust að hafa sama háttinn á gagnvart Burton og líklegt að Hörður Axel Vilhjálmsson verði fyrsti varnarmaður á honum. Hörður er nokkuð hærri en Burton og mun skyggja vel á körfuna en að sama skapi kemur að varnarbakkarar Keflavíkur eru að koma úr rimmu þar sem þeir mættu Njarðvík og eru leikstjórnendavandamál liðsins þekkt stærð þessa leiktíðina. Keflvíkingar verða því að hafa miklar gætur á Burton, annars mun þristunum rigna yfir þá. Að sama skapi gæti Burton lent í vandræðum varnarlega og ekki ósennilegt að bakverðir Keflvíkinga rúlli oftsinnis niður á blokkina og biðji þar um boltann þegar Burton er að dekka þá.
 
Gunnar Einarsson er ódrepandi, það hefur hann margoft sannað, og mun vafalítið refsa Snæfell við hvert einasta tækifæri. Með því að setja Sigurð Þorvaldsson á Gunnar gætu Hólmarar verið að klippa á þristana en með Emil Þór Jóhannsson á Gunnari mætast stálin stinn. Emil hefur vaxið gríðarlega síðan hann gekk í raðir Snæfells og er nú orðinn fastamaður í byrjunarliðinu hjá Inga Þór. Með Emil á Gunnari mætast reynsla og svo ungæðishátturinn, getum vel sagt að þarna hittir Gunnar fyrir ungan sjálfan sig.
 
Draelon Burns verður höfuðverkur fyrir Snæfell. Burns setur stóru körfurnar eins og hann sýndi eftirminnilega í fjórða leiknum gegn Njarðvík. Burns er fjölhæfur leikmaður og það verður ekkert gamanmál fyrir Sigurð Þorvalsson eða Emil Þór að elta hann um völlinn. Njarðvíkingar eiga feikilega sterka varnarmenn á borð við Guðmund Jónsson og Jóhann Árna Ólafsson sem máttu hafa fyrir hlutunum gegn Burns.
 
Stórustrákarimman verður ekki síður spennandi en bakvarðabaráttan. Verði Keflavík að góðu með Hlyn Bæringsson sem hefur farið á kostum alla leiktíðina. Líklegast verður að telja að Hlynur og Sigurður Gunnar Þorsteinsson fái að gæta hvers annars, þeir eru meira niðri á blokkinni og þar á örugglega eftir að verða nokkurt neistaflug. Þá eru eftir Uruele Iagbova og Jón Ólafur Jónsson. Ef Keflvíkingar eru í maður á mann vörn er ekki ósennilegt að Hólmarar setji upp sóknir sínar 4-1 með Hlyn í teignum og Jón Ólaf fyrir utan. Þannig nær Snæfell að draga Uruele út úr teignum því ekki má hann skilja Jón Ólaf eftir í opnu þriggja stiga skoti. Að sama skapi á Uruele nokkur kíló á Jón Ólaf og gæti því reynst honum erfiður sóknarlega. Uruele hatar það heldur ekkert að koma upp á lykil og keyra á stóru mennina og það gerir hann sterkt og klárar afar vel enda með um 65% nýtingu í teignum.
 
Af bekknum hjá Snæfell koma svo nokkrir sterkir, Pálmi Freyr Sigurgeirsson, Martins Berkis og Sveinn Davíðsson. Hjá Keflavík koma þeir Sverrir Þór Sverrisson og Jón N. Hafsteinsson og þrátt fyrir að Þröstur Leó Jóhannsson hafi verið í búning undanfarið kom hann ekkert við sögu í rimmunni gegn Njarðvík sökum meiðsla. Reynsluboltinn Gunnar Stefánsson er svo vel til þess fallinn að hoppa inn á hjá Keflavík og skella niður nokkrum þristum.
 
Keflavík-Snæfell
Leikur 1
Annað kvöld í Toyota-höllinni
Kl. 19:15 í beinni á Stöð 2 Sport
 
Fjölmennum á völlinn!
 
Tekið af karfan.is