Litlu slátrararnir skrifa undir í Blue-Höllinni
Það var annar gleðidagur sem við upplifðum í Blue Höllinni í dag þegar fjölmargir leikmenn kvennaliðsins okkar skrifuðu undir 2 ára samninga. Þetta lið hefur átt frábært tímabil og stimplað sig inn sem eitt skemmtilegasta lið deildarinnar. Liðið er ungt og hefur á síðustu misserum sýnt gríðarlegar framfarir. Það er því mikið ánægjuefni að þær klæðist áfram Keflavíkurbúningnum.
Anna Ingunn Svansdóttir er orðin ein af bestu skyttum landsins og hefur verið viðloðandi íslenska A landsliðið og á sannarlega framtíðina fyrir sér.
Daniela Wallen Morillo hefur verið ein af bestu leikmönnum Dominos deildar kvenna ef ekki sú besta. Frábær karakter sem var afar ánægð að tryggja veru sína áfram í Keflavík.
Emelía Ósk Gunnarsdóttir sem hefur um árabil verið ein af sterkustu leikmönnum deildarinnar og er fastaleikmaður í landsliði kvenna setti blek á pappír einnig. Emelía er blá í gegn og gaman að sjá hversu vel hún hefur náð sér upp úr afar erfiðum meiðslum.
Katla Rún Garðarsdóttir fyrirliði kvennaliðsins verður áfram í okkar herbúðum sem er hið besta mál. Katla er reynslumikill leikmaður þrátt fyrir ungan aldur og hefur verið viðloðandi landsliðið um hríð.
Anna Lára Vignisdóttir, Edda Karlsdóttir, Eva María Davíðsdóttir, Hjördís Lilja Traustadóttir, Ólöf Rún Óladóttir, Sara Lind Kristjánsdóttir eru allt stelpur með fjöldann allann af leikjum úr yngri landsliðum Íslands. Framtíðarleikmenn sem eru að stíga sín fyrstu skref á stóra sviðinu og það verður afar spennandi að fylgjast með þeim í náinni framtíð og frábært að tryggja veru þeirra áfram hér í Keflavík.