Fréttir

Lokahóf KKD Keflavíkur yfirstaðið
Karfa: Hitt og Þetta | 21. apríl 2012

Lokahóf KKD Keflavíkur yfirstaðið

Körfuknattleiksdeild Keflavíkur blés til lokahófs á miðvikudaginn síðastliðinn og var kvöldið ákaflega vel heppnað. Heimakær stemmning var í Toyota Höllinni, þar sem kraftmiklir grillarar framreiddu lambalæri í gríð og erg beint af grillinu með tilheyrandi meðlæti.

Jón Halldór Eðvaldsson var veislustjóri kvöldsins og stóð pjakkurinn sig með prýði. Hann reitti af sér brandara eins og enginn væri morgundagurinn við góðar undirtektir veislugesta.

Happdrætti var næst á dagskrá og var eftirspurn eftir miðum það mikil að menn felldu tár rétt fyrir dráttinn þegar ljóst var að allir miðar voru uppseldir í húsinu. Það skemmdi þó ekki fyrir og voru vinningar í tugatali sem rúlluðu út til vinningshafa. Kristín nokkur Blöndal fór á kostum þar sem hún hrifsaði til sín hvern vinninginn af fætur öðrum. Hún endaði happdrættið með því að landa lokavinningnum sem var glæsilegur hringur handsmíðaður af Eggert Hannah.

Því næst fór fram afhending á verðlaunum til þeirra leikmanna Keflavíkur sem þóttu skara fram úr í vetur.

Eftirfarandi viðurkenningar voru veittar:

Kvennaflokkur:
Efnilegasti leikmaðurinn: Sara Rún Hinriksdóttir
Besti leikmaðurinn: Pálína Gunnlaugsdóttir

Karlaflokkkur:
Efnilegasti leikmaðurinn: Valur Orri Valsson
Besti leikmaðurinn: Magnús Þór Gunnarsson

Úrvalslið Keflavíkur 2011-2012:
Magnús Þór Gunnarsson
Pálína Gunnlaugsdóttir
Valur Orri Valsson
Sara Rún Hinriksdóttir
Almar Guðbrandsson

 

Kvöldið var afar vel heppnað og var mjög góð stemmning í húsinu. Körfuknattleiksdeild þakkar öllum þeim sem komu að starfi deildarinnar í vetur með einum og öðrum hætti. Sjáumst í keppnisskapi á næsta tímabili og höldum áfram að hvetja okkar lið áfram!