Fréttir

Lokahóf KKDK 2013 yfirstaðið
Karfa: Hitt og Þetta | 5. maí 2013

Lokahóf KKDK 2013 yfirstaðið

 

Lokahóf Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur 2013 var haldið á föstudaginn síðastliðin og fóru herlegheitin fram í Toyota höllinni.

Grilluð lambalæri voru á boðstólnum fyrir gesti, en það voru grillmeistararnir Ólafur Ásmundsson, Þorgrímur Árnason og Guðmundur Bjarni Kristinsson sem stýrðu matseldinni eins og sannir höfðingjar.

Sigurður Valgeirsson hélt erindi og talaði um árangur Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur í gegnum tíðina og leiddi okkur einnig í gegnum upphaf körfuboltans hér á Suðurnesjum. Hann færði klúbbnum einnig upprunalegu myndina af Keflavíkurhraðlestinni sem að Stefán Jónsson teiknari gerði á sínum tíma. Klúbburinn vill koma enn og aftur þökkum á framfæri til Sigurðar fyrir þessa gjöf. Hermann Helgason, formaður KKD Keflavíkur, tók við af Sigurði og fræddi gesti um tölfræðilegar staðreyndir af titlum KKD Keflavíkur á þessu tímabili og á árum áður. Hann nefndi þar m.a. að ef 60 minutes ætti að fjalla um eitthvað rannsóknarefni, þá væri það árangur kvennakörfunnar í Keflavík.

Jón Gauti Dagbjartsson, fallbyssukjaftur úr Grindavík, mætti á svæðið og jós svívirðingum yfir veislugesti að hætti hússins. Það mæddi mikið á honum að kvarta og kveina yfir þeim Keflvíkingum sem sendir hafa verið yfir Alpana (Þorbjörn) til að spila og þjálfa fyrir Grindavík. Uppistand hans vakti mikla kátínu veislugesta og fékk hann standandi lófatak þegar yfir lauk.

Happdrættið lukkaðist vel og voru fjöldinn allur af glæsilegum vinningum sem runnu út til gesta sem fjárfest höfðu í miðum og dottið í lukkupottinn.

Valdimar Guðmundsson og Björgvin Baldursson, einnig nefndir Eldar, spiluðu fagra tóna fyrir veislugesti eftir verðlaunaafhendinguna.

Jessica Jenkins var á svæðinu og afhenti kvennaráð henni blómvönd fyrir að hafa lagt hönd á plóginn með kvennaliðinu í vetur.

Verðlaunaafhendingu var stýrt af Sævari Sævarssyni, en eftirtaldir voru verðlaunaðir:

Besti leikmaður karlaliðs:
Darrel Lewis

Besti varnarmaður karlaliðs:
Darrel Lewis

Efnilegast leikmaður karlaliðs:
Ragnar Gerald Albertsson

Besti leikmaður kvennaliðs:
Pálína María Gunnlaugsdóttir

Besti varnarmaður kvennaliðs:
Pálína María Gunnlaugsdóttir

Efnilegast leikmaður kvennaliðs:
Ingunn Embla Kristínardóttir

Lið ársins:
Darrell Lewis
Pálína María Gunnlaugsdóttir
Birna Valgarðsdóttir
Sara Rún Hinriksdóttir
Ingunn Embla Kristínardóttir

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur vill koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem komu að starfinu með okkur í vetur, þar með talið leikmönnum, stuðningsmönnum og styrktaraðilum. Hlökkum til að koma aftur sterk til leiks á næsta tímabili!