Loksins sigur á Hamarsstúlkum
Sigurganga Hamarsstúlkna var loksins stöðvuð í Hveragerði í gær, en þá mættu
Keflavíkurstúlkur á svæðið og gerðu allt vitlaust. Lokatölur leiksins voru 86-93
fyrir Keflavík.
Hamar byrjaði leikinn betur og hafði algjöra stjórn á 1. leikhluta, þar sem Keflavík
var alltaf að elta. Staðan eftir 1. leikhluta var 26-16. Algjör kúvending átti sér stað
í öðrum leikhluta, þar sem Keflavík gerði 39 stig gegn 16. Skyndilega var staðan
orðin 42-55 þegar hálfleiksflautan gall.
Seinni hálfleikur var með svipuðu sniði og héldu Keflavíkurstúlkur þessari forystu
út leikinn. Litlu munaði þó að Hamar næði að komast nálægt því að jafna, en staðan
var orðin 78-82 þegar um 3 mínútur lifðu leiks. Allt kom þó fyrir ekki og það voru
Keflavíkurstúlkur sem fögnuðu flottum sigri. Deildarmeistarabikarinn var kominn á
staðinn fyrir Hamarsstúlkur til að lyfta ef þær höfðu náð sigri gegn Keflavík. Það
verður þó að bíða. Fyrir leikinn höfðu Hamarsstúlkur unnið 15 leiki í röð í deildinni.
Atkvæðamest hjá Keflavík var Jacquline Adamshick með 33 stig og 20 fráköst.
Bryndís Guðmundsdóttir gerði 25 stig og var með 6 stoðsendingar. Pálína
Gunnlaugsdóttir gerði 15 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar. Marina Caran
og Ingibjörg Jakobsdóttir gerðu 7 stig hvor og Birna Valgarðs gerði 6 stig.
Hjá Hamri var Jaleesa Butler atkvæðamest með 29 stig, 13 fráköst og 10 s
toðsendingar. Kristrún Sigurjónsdóttir gerði 19 stig, Íris Ásgeirsdóttir gerði
14 stig og 8 fráköst. Guðbjörg Sverrisdóttir gerði 9 stig, Fanney Lind 7,
Slavica Dimvoska 6 og Þórunn Bjarnadóttir 2.
Jaqueline Adamshick fór hamförum í gær (mynd: karfan.is)