Fréttir

Karfa: Karlar | 15. febrúar 2008

Mætum í Keflavíkurlitum á leikinn. Fannar með i kvöld

Mikil spenna er fyrir toppslagin gegn KR í kvöld og alveg ljóst að það verður þétt setin bekkurinn í DHL Höllinni. Við hvetjum stuðningsmenn Keflavíkur til að mæta í búningum, bolum merktum Keflavík eða bara bláum lit á leikinn.

Fyrirliðinn Fannar Ólafsson verður í leikmannahópi KR í fyrsta skipti á árinu í kvöld þegar Íslandsmeistararnir taka á móti fyrrum félögum hans í Keflavík í Iceland Express deildinni. Hér er um sannkallaðan toppslag að ræða.
"Já, ég ætla að reyna að spila í kvöld," sagði Fannar í samtali við Vísi í dag. "Ég er búinn að vera að æfa núna í viku og okkur sýnist að þetta muni ganga upp. Ég er að vísu að þessu í hálfgerðri óþökk við sjúkraþjálfarann því ég er næstum tveimur vikum á undan áætlun. Það er eiginlega of gott til að vera satt að maður skuli koma aftur fyrir leikinn gegn Keflavík," sagði Fannar léttur í bragði.


Óskar Ófeigur Jónsson skrifar í Fréttablaðinu í dag.

Einn af úrslitaleikjum um deildarmeistaratitilinn í Iceland Express-deild karla fer fram í DHL-höllinni í kvöld þegar Íslandsmeistarar KR-inga taka á móti toppliði Keflavíkur. KR-ingar eiga harma að hefna frá því í fyrri leiknum sem Keflavík vann með 22 stiga mun, 107-85.

Það tap þýðir jafnframt að KR-ingar þyrftu að vinna leikinn með 23 stigum til þess að taka toppsætið af Keflavík í kvöld. Keflavík er með tveggja stiga forskot fyrir leikinn og með sigri fer liðið langt með að tryggja sér deildarmeistaratitilinn því liðið væri þá í raun komið með sex stiga forskot, með fjórum stigum meira en KR og betri árangur í innbyrðisviðureignum liðanna.

„Þetta verður frábær leikur, bæði lið eru gríðarlega vel mönnuð og eru kannski búin að vera jafnsterkustu liðin yfir veturinn. Ég held að ef Keflavík tekur þennan leik þá verður liðið nokkurn veginn komið með deildarmeistaratitilinn," segir Teitur Örlygsson, þjálfari Njarðvíkur, sem er búinn að spila við bæði lið að undanförnu.

„Þetta eru ólík lið. Keflavík er meira léttleikandi lið, er með frábæran leikstjórnanda í Bobby Walker og stendur svolítið og fellur með honum en hann er alveg magnaður leikmaður. KR er með fleiri sterka pósta og ætti að öllu óbreyttu að vinna einvígið inni í teig. Annars er Siggi Þorsteins búinn að vera að spila frábærlega undanfarið og taka hellings framförum.
Það er mikið rætt um útlendingana í liðinu en Teitur segir íslensku strákana vera líka í stórum hlutverkum.

„Maggi og Jonni verða í stórum hlutverkum hjá Keflavík í þessum leik. Jonni hefur átti marga frábæra leiki og það er nokkuð ljóst að ef hann spilar vel þá vinnur Keflavík. Maggi hefur kannski aðeins gefið eftir en það vita allir hvernig hann er. Þó að Maggi sé ekki að skora 20 stig í leik þá setur hann alltaf mark sitt á leikinn," segir Teitur og bætir við.

„KR-megin er Helgi ofarlega í huganum á mér. Hann átti magnaðan leik í seinni hálfleik á móti okkur um daginn. Hann var frábær báðum megin á vellinum, gerði frábæra hluti á móti Brenton og skoraði hinum megin. KR-ingar eru síðan með fleiri toppmenn eins og Pálma sem er búinn að skjóta boltanum vel undanfarið og Brynjar sem er frábær skotmaður," segir Teitur, sem á erfitt með að spá fyrir um úrslit.

„Ég held að það verði frábær einvígi alls staðar. Það er ekkert ólíklegt að þessi leikur ráðist bara í blálokin," segir Teitur.

Jón Arnar Ingvarsson, þjálfari ÍR-inga, hefur meiri trú á Keflvíkingum í leiknum og aðalrökin fyrir því finnur hann í varnarleiknum. „Keflavík hefur verið að spila hraðan leik en KR hefur frekar viljað hægja á þessu upp á síðkastið. Þegar við spiluðum við Keflavík spilaði Keflavík mjög góða vörn allan tímann en mér hefur fundist KR-ingar verið gloppóttir í varnarleiknum síðustu mánuðina. Þegar þeir unnu meistaratitilinn í fyrra voru þeir að spila gríðarlega þétta og góða vörn. Heimavöllur KR er mjög sterkur en ég væri ekki hissa ef Keflavíkingar myndu stela þessum leik því ég held að vörnin þeirra geti gert útslagið," segir Jón Arnar sem eins og Teitur segir liðin vera ólík.

„Þetta eru í rauninn svolítið ólík lið því Keflvíkingar einblína nokkuð á bakverðina fyrir utan, útlendingana tvo og svo Magga. Bæði Sigurður og Ástralinn eru góðir en þeir eru ekki í aðalhlutverki í liðinu. Hjá KR leita þeir mikið til Joshua Helm og svo nú Sola eftir að hann kom. Þeirra leikur snýst því meira um stóru mennina," segir Jón Arnar en hann telur að frammistaða Bandaríkjamannanna koma til með að ráða úrslitum.

„Kanarnir tveir verða lykilmenn í þessum leik. Þetta verður spurning um hvort Helm nær að eiga mjög góðan leik eða hvort Walker spili vel. Maður sér alveg fyrir sér að KR gæti lent í vandræðum með Walker en á móti eru bæði Susnjara og Sigurður svolitlir villukarlar. Ef þeir lenda í villuvandræðum gæti Helm fengið að njóta sín en ef þeir ná að halda honum niðri þá ætti Keflavík að taka þetta," segir Jón Arnar.

Leikurinn í kvöld hefst klukkan 19.15 og það má búast við að menn geti fengið þar forsmekkinn af því sem koma skal í úrslitakeppninni sem hefst eftir rúman mánuð.