Magnaður sigur á KR
Keflvíkingum tókst að búa til frábæran sjónvarpsleik í kvöld þegar þeir lögðu KR að velli í frábærum leik, en lokatölur leiksins voru 92-100. Fyrsti leikhluti fór ágætlega af stað og voru bæði lið lítið að gefa eftir, en staðan eftir fyrsta leikhluta var 28-26 fyrir KR. Svo kom annar leikhluti sem margir Keflvíkingar vilja gleyma sem fyrst, en KR-ingar hreinlega völtuðu yfir niðurbrotna Keflvíkinga og náðu að komast í stöðuna 52-35 þegar flautað var til hálfleiks. Það fór eflaust um marga Keflvíkinga hrollur þegar staðan leit svona út, en hið ótrúlega átti enn eftir að gerast. Í seinni hálfleik komu Keflvíkingar dýrvitlausir til leiks, fullir sjálfstrausts, hittandi utan af velli og spilandi boltanum vel inn í teig. Snargeggjaður viðsnúningur varð á leiknum, en þegar flautað var til loka 3. leikhluta var staðan orðin 68-73 fyrir Keflavík. Keflvíkingar höfðu skorað 38 stig gegn 16 stigum KR-inga í fjórðungnum og ætlaði allt um koll að keyra á áhorfendabekkjum Keflvíkinga. Liðið hafði gjörbreyst og KR-ingarnir urðu algjörlega meðvitundarlausir þegar þeir reyndu að átta sig á því hvað hafði gerst. Í 4. leikhluta héldu Keflvíkingar uppteknum hætti og með fanta góðri spilamennsku, sem þó hefði mátt bæta á köflum, náðu þeir að grilla KR-ingana algjörlega og sigra leikinn að lokum 92-100. Hreint út sagt magnaður leikur hjá strákunum og ef þetta er það sem koma skal hjá Keflavík; þá er eins gott fyrir önnur lið að vera á varðbergi.
Það er því ljóst að staðan í deildinni er ennþá í járnum og ræðst staðan í toppsætunum ekki fyrr en í síðustu umferðinni. Þá mæta Keflvíkingar Hamarsmönnum í Keflavík, KR-ingar fara upp á Stykkishólm og spila við Snæfell, og að lokum spila Grindvíkingar á útivelli gegn ÍR. Það er algjör skylda fyrir stuðningsmenn og bæjarbúa að fjölmenna á leikinn sem háður verður á fimmtudaginn gegn Hamar í Keflavík.
Hjá Keflavík var Draelon Burns sjóðheitur með 29 stig, Uruele Igbavboa var með 25 stig og Hörður Axel Vilhjálmsson með 20 stig. Hjá KR var Brynjar Þór Björnsson með 27 stig og Tommy Johnson 18.
Áfram Keflavík!