Magnús Gunnarsson skrifar undir samning – nú vantar bara Kana . . .
Allri óvissu varðandi Magnús Gunnarsson bakvörð var eytt í dag þegar hann skrifaði undir samning við körfuknattleiksdeildina. Nú liggur að mestu leyti ljóst fyrir hvernig leikmannahópurinn verður skipaður í vetur, nema hvað enn á eftir að taka ákvörðun um liðsstyrk erlendis frá. Þau mál munu skýrast á næstu vikum, en óhætt er að segja að framboð á bandarískum leikmönnum er gríðarlegt og úr vöndu að ráða.
Sem stendur er hópurinn þannig skipaður (leikstaða í sviga):
Falur Harðarson (B), Hjörtur Harðarson (B), Magnús Gunnarsson (B), Davíð Jónsson (B), Sveinbjörn Skúlason (B), Jón Gauti Jónsson (B), Gunnar Stefánsson (B/F), Gunnar Einarsson (B/F), Sævar Sævarsson (B/F), Jón N Hafsteinsson (F) og Halldór Halldórsson (F/M).
Af þessari upptalningu má sjá að leikmannahópurinn er sterkur, enda veitir ekki af þar sem álagið á leikmenn verður meira en menn hafa vanist á undanförnum árum sökum sex erfiðra leikja í Evrópukeppninni í nóvember og desember. Það mun því verulega reyna á hópinn þar sem menn hafa jú í hyggju að reyna að verja sem flesta af meistaratitlunum sem nú eru í húsi.
Þegar leikmannalistinn er skoðaður er augljóst að nóg er af frambærilegum bakvörðum og skotmönnum sem leikið geta grimma pressuvörn, en minna af hávöxnum og sterkum framherjum og miðherjum. En reynt verður að styrkja liðið þar sem það er veikast fyrir áður en átökin hefjast af alvöru.