Fréttir

Magnús Þór heiðraður fyrir sigurleikinn gegn ÍR
Karfa: Karlar | 18. mars 2013

Magnús Þór heiðraður fyrir sigurleikinn gegn ÍR

Keflvíkingar enda í 5. sæti í Domino´s deild karla annað árið í röð eftir sigur á ÍR í Toyotahöllinni í gær, 87-78. Leikurinn var spennandi og gáfu ÍR-ingar allt sem þeir gátu í leikinn. Heimamenn byrjuðu leikinn virkilega vel en líkt og einkennt hefur liðið á köflum í vetur minnkaði flæðið í sóknarleiknum fljótlega og úr varð spennandi leikur. Keflvíkingar mæta því Stjörnunni í 8-liða úrslitum annað árið í röð en þeir síðarnefndu eru á miklu flugi þessa stundina. Það þarf þó varla að taka það fram að úrslitakeppnin er ný keppni þar sem Keflvíkingar munu svo sannarlega láta sverfa til stáls. Leikurinn í gær bar þess merki að leikmenn sem hefja vanalega leikinn á bekknum séu tilbúnir að láta til sín taka en þeir Arnar Freyr Jónsson, Snorri Hrafnkelsson, Almar Guðbrandsson, Hafliði Már Brynjarsson og Ragnar Albertsson áttu allir ágætis innkomu. 

Fyrir leikinn var Magnús Þór Gunnarsson heiðraður fyrir að hafa á tímabilinu leikið sinn 500. leik fyrir félagið. Á þeim tíma hefur hann unnið 5 Íslandsmeistaratitla og þrjá bikarmeistaratitla auk fjölda annarra minni titla og einstaklingsviðurkenninga.