Maltbikarinn, Landsliðið og Dominosdeildin
Nú er körfuboltaveturinn farinn á fulla ferð og mikið er um að vera. Liðin í Dominosdeildinni eru að komast í fanta form og Bikarkeppnin er komin á flug. Það er því úr miklu að moða fyrir körfuboltaunnendur landsins og um að gera að staldra aðeins við og fara yfir stöðuna og hvað sé á döfinni.
Bikarkeppnin: Maltbikarinn
Eins og flestir þekkja drógust Keflvíkingar gegn erkifjendunum hinumegin við lækinn í Njarðvík í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar. Það hefur verið umdeilt að slíkt geti átt sér stað svona snemma í keppninni en í stað þess að svekkjast yfir því var ákveðið að gera það besta úr stöðunni og bjóða til glæsilegrar körfuboltaveislu í TM höllinni. Og glæsileg var hún. Fyrir húsfylli af fólki mættust liðin líkt og um úrslitakeppni væri að ræða. Áhorfendur voru frábærir, liðin léku á alls oddi og MVP kvöldsins að margra mati voru Víkurfréttir, sem stigu upp og sendu leikinn út í beinni útsendingu. Frábært framtak hjá þeim og vonandi verður hægt að gera meira af þessu í framtíðinni.
Ef farið er eldfljótt yfir leikinn sjálfan skiptust liðin á áhlaupum og réðust úrslitin ekki fyrr en á loka mínútunni. Keflvíkingar sýndu mikinn karakter eftir að Gummi Jóns og Amin Stevens voru farnir af velli með 5 villur hvor undir lok leiksins steig restin upp og sigldi sigrinum í höfn eftir algjöran naglbít í fjórða leikhluta.
Frábær liðssigur Keflavíkur en maður leiksins óumdeilanlega Reggie Dupree sem spilaði magnaða vörn og endaði leikinn með 28 stig, 11 fráköst og 3 stoðsendingar. Vel gert!
Reggie með glæsileg tilþrif undir körfunni. Mynd: VF.is
Karlaliðið því komið áfram í 16-liða úrslit og þar dógst liðið gegn Þór Þorlákshöfn og leikið verður í TM höllinni á dögunum 4. og 5. desember.
Stelpurnar sátu hjá í fyrstu umferð bikarkeppninnar, sem var 16-liða úrslit og koma því beint inn í 8-liða úrslitin. Dregið verður saman í 8-liða úrslit karla og kvenna í desember og verður gaman að sjá hvaða andstæðing stelpurnar fá.
Keflavíkurstúlkur í A-landsliðinu
Þegar 15 manna æfingahópur íslenska kvennalandsliðsins fyrir undankeppni Eurobasket 2017 mátti sjá ýmsar nýjungar. Það var ánægjulegt að sjá að ungar Keflavíkurstúlkur komu nýjar inn í hópinn en eins og allir þekkja hafa þær verið að standa sig gríðarlega vel það sem af er vetrar. Þær Birna Valgerður, Emelía Ósk og Thelma Dís koma nýjar inn í hópinn en fyrir hönd Keflavíkur í landsliðinu er einnig Salbjörg Ragna sem áður hefur verið valin í hópinn. Frábært og verðskuldað hrós fyrir stelpurnar og óskum þeim innilega til hamingju.
Nýliðarnir í landsliðinu hafa allar fengið titilinn leikmaður umferðarinnar á þessu tímabili.
Dominosdeildin
Dominosdeildin heldur sínum vanagangi og næsti leikur Keflavíkurliðanna er strax í kvöld (9.11.16) fer önnur umferð af stað þar sem Keflavíkurstelpurnar mæta Stjörnunni í Garðabænum og hafa þær harm að hefna frá fyrri leik liðanna. Leikurinn hefst kl 19:15 og hvetjum við auðvitað alla til að leggja leið sína á völlinn og styðja stelpurnar til sigurs. Keflavíkurstelpur sitja enn á toppi deildarinnar en það er ljóst að þær munu þurfa berjast hart með fyrir hverjum sigri.
Það er leikið mjög ört í Kvennadeildinni og Keflavíkurstelpur eiga svo leik strax á laugardaginn en þá fá þært nágrannana úr Grindavík í heimsókn í TM höllina en leikið verður kl 16:30.
Strákarnir halda svo áfram eftir sterkan bikarleik gegn Njarðvík og bíður þeirra rútuferð í Borgarnes þar sem þeir mæta Skallagrím fimtudagskvöldið 10.11.16 kl 19:15. Ekki langt að fara og því auðvelt fyrir stuðningsmenn keflavíkur að fylgja þeim eftir. Mikið álag á liðunum þessa dagana en þetta verður 3 leikurinn á einni viku.
Strákarnir sitja í 4. sæti deildarinnar með 6 stig ásamt Tindastól og Grindavík. Skallagrímur situr í 11. sæti með 2 stig og eru þeir væntanlega orðnir þyrstir í sinn næsta sigur. Það kann því að verða hröku leikur og vonandi sjá flestir sér færi á að mæta á völlinn.