Margir hæfileikaríkir drengir í 7. flokki
7. flokkur drengja lék helgina 27. -28. nóvember í A-riðli, 2. umferðar Íslandsmótsins. Í 1. umferð léku aðeins 4 lið þar sem Hrunamenn drógu sig úr keppni. Þar gekk drengjunum ekki nægilega vel og töpuðu þeir öllum leikjunum. Það kom þó ekki að sök og liðið hélt sæti sínu í A-riðli.
Mótið fór fram á heimavelli í Keflavík og hófum við leik gegn ríkjandi Íslandsmeisturum í KR. Sá leikur reyndist þrautinni þyngri og hvort heldur það var vanmat á eigin getu eða ekki, þá voru drengirnir aldrei í séns. Misstu andstæðingana langt fram úr sér og þótt að hetjuleg barátta og skynsamur sóknaleikur í seinni hálfleik hafi skilað ágætis "rönni", dugði það ekki til. Lokatölur 18-42.
Annar leikurinn var gegn frændum vorum úr Njarðvík. Þeir hafa haft ágætt tak á okkur í gegnum tíðina og oftar en ekki unnið nokkuð stórt. Mikil batamerki voru á leik okkar manna og munaði ekki meira en 2-4 stigum á löngum köflum. 2 stórir þristar frá leikmanni Njarðvíkur, annar á lokasekúndu skotklukku, meter fyrir utan 3 stiga línu og annar sem átti að vera sending rétt innan við miðju, en rataði beint ofaní, fór illa í okkar menn og reyndist erfitt að ná tökum á leiknum eftir það. Engu að síður voru mjög góðir kaflar í leiknum og við vorum alls ekki langt frá því að landa okkar fyrsta sigri gegn Njarðvík. Lokatölur 44-50.
Á sunnudeginum var svo komið að Grindavík og Stjörnunni. Strákarnir spiluðu frábærlega í 2. og 3. leikhluta og náðu 12 stiga forystu þegar mest var. En það hefur reynst okkur erfiðlega að halda forystu og klára leiki. Við hættum að sækja eins vel og áður í leiknum og Grindavík gekk á lagið. Að lokum náðum við þó að hanga á fengnum hlut og uppskárum góðan sigur 34-30.
Sama var uppi á teningunum gegn Stjörnunni, góð forysta fór minnkandi, þó Stjarnan hafi aldrei verið langt frá. Neglur voru nagaðar og gráum hárum fjölgaði á höfði þjálfara er við náðum að landa góðum sigri, 38-37.
Drengirnir stóðu sig eins og hetjur alla helgina, allir skiluðu sínu og gott betur en það. Nú er leiðin bara upp á við hjá strákunum og ekkert launungamál að við þokumst nær toppnum með hverjum leiknum. Í hópnum eru margir hæfileikaríkir leikmenn sem með aðeins agaðari leik og sjálfstrausti, gætu gert tilkall til Íslandsmeistaratitilsins í vor.
Kv.
Gunni Stef.