Martröð á Ásvöllum
Drengirnir í 9.flokki (9. bekkur grunnskólans) héldu um helgina, ásamt þjálfara sínum, inn á Ásvelli í Hafnarfirði og léku heila umferð í Íslandsmótinu. Leikið var í a-riðli þar sem við unnum nokkuð örugglega síðasta mót í b-riðli og færðumst því upp um riðil.
Andstæðingar okkar þessa helgi voru UMFG, núverandi Íslandsmeistarar, KR, Haukar og Njarðvík. Drengirnir ásamt þjálfara fóru stórhuga í mótið og ætluðu svo sannarlega að taka til hendinni og sigra að minnsta kosti tvo leiki ef ekki alla leikina. Ekki urðu nú aflagiftir eins og vonast var til og töpuðust allir leikirnir og það með nokkrum mun. Hópurinn í sárum eftir helgina og horfir nú fram á enn eitt Íslandsmótið búið í byrjun febrúar og enn eina keppnina í b-riðli þar sem ekkert Keflavíkurlið vill vera á þessum tíma árs.
Leikir helgarinnar:
Keflavík - UMFG.
Fyrsti leikurinn var á móti Grindavík og ætlunin að byrja mótið á sigri hér. Leikurinn byrjaði ekki sem skyldi og okkar drengir komnir undir 1- 13 þar sem okkar drengir óðum í færum en ekkert vildi ofan í á meðan Grindavíkurdrengirnir voru öllu afslappaðri og settu sín færi niður. Keflavíkurdrengirnir náðu að róa sig niður og komumst yfir 23 – 21. Í hálfleik stóðu leikar 34 – 37 og leikurinn í járnum. Keflavíkurliðið var komið í smá villuvandræði í hálfleik en það hafði lítt að segja í byrjun seinni hálfleiks sem var jafn. Vegna villuvandræða, í stöðunni 44 – 45, fóru okkar drengir 2-3 svæði og settu þá Grindavíkurdrengir 4 þrista og tóku 0 – 15 rispu og skildu leiðir þar með. Þarna var okkar liði komið í veruleg villuvandræði og náðum við aldrei að komast almennilega inn í leikinn eftir þessa rispu. Lokatölur urðu 56 – 75 fyrir Grindavík.
Stigaskor okkar drengja:
Arnþór Ingvason (8), Árni V. Karlsson, Eiður Unnarsson (6), Guðmundur Ólafsson (4), Kormákur Þórsson, Kristinn R. Sveinsson (2), Oliver Bjarnason, Sigurður G. Loftsson, Sigurþór Ingi Sigurþórsson (19), Tryggvi Ólafsson (13), Arnór Ingvason (2) og Marvin H. Guðmundsson (2)
Keflavík - KR.
Næsti leikur dagsins var á móti KR og byrjuðu okkar drengir þann leik aðeins betur og var staðan eftir fyrsta leikhluta 17 – 24. Keflavíkurdrengir spiluðu þétta pressuvörn allan völlinn og komu KR aðeins óvart. Í öðrum leikhluta hrundi sú pressa og KR gekk á lagið og brotnuðu okkar drengir við forskot KR og sóknin þar með og staðan í leikhléi 27 – 46. Í seinni hálfleik hættu Keflavíkurdrengir að pressa og lokuðu teignum betur og jafnaðist leikurinn og staðan eftir þrjá leikhluta 38- 56. Lokatölur 44 -71.
Stigaskor okkar drengja:
Arnþór Ingvason (22), Árni V. Karlsson, Eiður Unnarsson (2), Guðmundur Ólafsson (9), Kormákur Þórsson (2), Kristinn R. Sveinsson, Oliver Bjarnason, Sigurður G. Loftsson, Sigurþór Ingi Sigurþórsson (6), Tryggvi Ólafsson (3), Arnór Ingvason og Marvin H. Guðmundsson.
Keflavík - Haukar.
Þriðji leikur helgarinnar var síðan á móti liði Hauka í Hafnarfirði og menn nokkuð bjartsýnir þar sem Keflavíkurdrengirnir unnu Haukaliðið fyrr í vetur. Ekki stóð steinn yfir steini í þeim leik og var staðan í hálfleik 26 – 39 þar sem Kári Jónsson leikmaður Hauka hafði einnig gert 26 stig í fyrri hálfleik. Það sama hélt áfram í seinni hálfleik þar sem ekkert virtist ætla að ganga upp þessa helgina og lokatölur 51-72. Drengirnir niðurbrotnir og þreyttir og úrslitaleikur við Njarðvík, um veru í a-riðli, framundan.
Stigaskor okkar drengja:
Arnþór Ingvason (6), Árni V. Karlsson, Eiður Unnarsson, Guðmundur Ólafsson (4), Kristinn R. Sveinsson (3), Oliver Bjarnason, Sigurður G. Loftsson, Sigurþór Ingi Sigurþórsson (11), Tryggvi Ólafsson (22), Arnór Ingvason (5) og Marvin H. Guðmundsson.
Keflavík - Njarðvík.
Úrslitaleikurinn, um áframhaldandi sæti í a-riðli, á móti Njarðvík byrjaði ágætlega og pressuvörn okkar drengja að ganga ágætlega sem og sóknarleikurinn. Leiddum drengirnir að mestu fyrsta leikhluta en baráttuglaðir Njarðvíkurdrengir fóru að tína sóknarfráköst eins og ber af lyngi og komust þannig inn í leikinn og leiddu 23 – 25 eftir fyrsta hlutann. Annar leikhlutinn hélst nokkuð jafn en Njarðvíkurdrengir ódrepandi í sóknarfráköstum þar sem þeirra minnstu menn fóru hamförum í að hrifsa sóknarfráköst. Þrátt fyrir þessa „neftöku“ í fráköstum leiddu okkar drengir í hálfleik 43 – 42. Seinni hálfleikurinn byrjaði hinsvegar á því að við tókum að henda sendingum í hendur Njarðvíkurdrengja og gefum þeim 6 -17 rispu til að klára leikinn. Brotnaði lið okkar við þetta áhlaup og komust drengir okkar aldrei almennilega í "frákastagírinn" til að taka varnarfráköst svo ekki var að sökum að spyrja að erkifjendurnir sendu okkar lið beina leið í b-riðil með „stæl“. Lokatölur leiksins 69 – 86 og alltaf jafn ömurlegt að tapa fyrir þessu „litla liði“ hér hinum megin læksins. Breytist seint.
Stigaskor okkar drengja:
Arnþór Ingvason (14), Árni V. Karlsson, Eiður Unnarsson (4), Guðmundur Ólafsson (10), Kristinn R. Sveinsson, Oliver Bjarnason, Sigurður G. Loftsson, Sigurþór Ingi Sigurþórsson (15), Tryggvi Ólafsson (18), Arnór Ingvason (2) og Marvin H. Guðmundsson (2).
Ótrúlega svekkjandi niðurstaða að vera komnir aftur í b-riðil, þar sem virkilega góðir sprettir sáust í öllum leikjunum nema kannski Haukaleiknum. Leikmenn og þjálfari verða nú að leggjast undir feld og skoða málin alvarlega til að koma liðinu sem fyrst aftur upp í a-riðil og skrattast til að halda sér þar og hætta þessum „bésefans“ aumingjaskap........getur ekki talist annað þegar Njarðvík flengir okkar lið í úrslitaleik.
LIð Keflavíkur á mótinu. Lið Grindavíkur sem sigraði riðilinn.
Áfram Keflavík !