MB drengja 11 ára - Íslandsmót.
Drengirnir í minnibolta 11 ára léku um helgina í 2. umferð Íslandsmótsins, B-riðli, í Grindavík. Eftir að hafa fallið úr A-riðli, frekar svekkjandi, fyrir mánuði síðan, voru drengirnir hungraðir að sýna hvað í þeim býr. Eftir að hafa æft mjög vel í heilan mánuð, þar sem fjölgaði statt og stöðugt í annars frábærum hóp, voru strákarnir klárir. Einhvers staðar stendur að fall sé fararheill og átti það vel við um helgina. Fyrsti leikur var gegn gríðarsterku liði Breiðabliks, sem ásamt heimamönnum og Keflavík, voru sigurstranglegastir fyrirfram. Leikurinn var hnífjafn frá fyrstu mínútu og léku bæði lið skínandi vel. Fyrir síðasta og fimmta leikhlutann var staðan 30-26 fyrir Keflavík og skemmst er frá því að segja að okkar menn skiluðu sigrinum í hús, með öguðum og skynsömum leik, 34-30. Fín byrjun og góð fyrirheit. Seinna á laugardeginum var svo leikið gegn Sindra frá Hornafirði og léku Keflvíkingar listir sínar svo um munaði og sigruðu 42-18. Frábær leikur. Á sunnudagsmorgni var svo komið að Val. Strákarnir voru einbeittir og greinilegt að samningur þeirra við þjálfarann sinn um að mega ráða skeggi þjálfarans í leik hans um kvöldið, var þeim mikil innspýting. Þeir völtuðu yfir Valsmenn, sem aldrei sáu til sólar, lokatölur 56-18, en þess má geta að 4. leikhluti fór 28-0, hana nú! Eftir þessi úrslit þýddi það að strákarnir máttu tapa með 2. stiga mun gegn Grindavík til að fara upp um riðil, en tap var ekki valkostur. Jafnræði var með liðunum til að byrja með, en svo stigu okkar menn á bensíngjöfina og þéttu varnarleikinn og héldu í síðasta leikhlutann með 10 stiga forystu 36-26. Eftir að skora fyrstu stig leikhlutans, urðu menn helst til værukærir, voru e.t.v. farnir að huga að skegglínum og börtum, því Grindvíkingar minnkuðu muninn jafnt og þétt. Með yfirveguðum og vel stýrðum sóknarleik síðustu mínútuna náðu okkar menn að sigra, með minnstum mun þó, 38-36. Þetta þýddi einfaldlega að strákarnir gerðu það sem þeir ætluðu sér, að sigra alla leikina, komast upp í A-riðil og ráða skeggi þjálfarans. Þetta kallar maður menn sem að vita hvað þeir vilja. Flottur varnarleikur, hraður bolti og á köflum skynsamlegur sóknarleikur skilaði þessum árangri piltanna. Þeir léku allir óaðfinnanlega um helgina og skemmtilegt að sjá hvað þessir strákar eru að verða meira og meira heilsteypt lið. Öllum tókst að skora og þó stigum hafi verið misskipt, lagði hver einn og einasti allt sem hann átti í leikina. Fráköst, stoðsendingar, barátta, hvatning og prúðmennska telja því miður ekki á skýrslu. En stigaskor um helgina var samt svohljóðandi: Árni Steinn 4 stig, Arnór Ingi 26 stig, Reynir Þór 8 stig, Arnór Elí 2 stig, Björgvin 2 stig, Marvin 32 stig, Elfar 8 stig, Brynjar Bergmann 26 stig, Brynjar Steinn 14 stig, Elmar 18 stig, Róbert 26 stig og Geiri 2 stig. Frábær helgi hjá drengjunum sem allir Keflvíkingar geta verið stoltir af. Takk fyrir helgina strákar, foreldrar og forráðamenn.
Með körfuboltakveðju! Gunni Stef.