Meiri pælingar um aðsókn á körfuboltaleikjum
Mér er mjög umhugað að reyna að efla aðsókn á leiki í körfunni á Íslandi. Fyrir rúmum tuttugu árum var troðfullt á alla heimaleiki Keflvíkinga í körfubolta. Skipti engu máli við hvern verið var að keppa, allir mættu í Sláturhúsið. Og þegar Njarðvíkingar komu í heimsókn þurftu áhorfendur að mæta löngu fyrir leik til að tryggja sér sæti. En þetta var fyrir tuttugu árum. Í dag er öldin önnur.
Vissulega mæta margir þegar Njarðvík kemur í heimsókn. Einnig fyllist húsið í úrslitakeppninni og þegar erlend lið koma í heimsókn í Evrópukeppninni. En þá er það líka upptalið. Venjulegir leikir hafa ekkert aðdráttarafl lengur. Tólf lið eru í efstu deild, alls ellefu heimaleikir og aðsóknin léleg. Samt er hún einna mest í Keflavík! Ekki koma fleiri í húsið hjá Njarðvík, Grindavík, KR eða Haukum, svo dæmi séu tekin. Öðru hvoru lenda félög í hálfgerðum “spútnik” árum og ná upp aðsókn, en slíkt varir oft stutt. Eins og ég hef minnst á áður, þá dugar Bikarúrslitaleikur ekki lengur til að fylla Höllina og alvöru landsleikir eru heldur engin trygging fyrir troðfullum húsum.
Nú spyr ég: af hverju er aðsókn ekki betri? Og hvað er til ráða?
Að fyrri spurningunni, af hverju er aðsókn slök, reyndar arfaslök á flestum leikjum? Mig langar að telja upp nokkrar af þeim ástæðum sem ég hef heyrt fleygt fram á liðnum árum, án þess að vilja endilega gera þær að mínum hér:
- of margir leikir
- of mörg lið í efstu deild
- of margir ójafnir leikir
- of margir útlendingar
- of lélegir útlendingar
- miklu meira gaman að horfa á fótbolta í sjónvarpinu
- allt of mikið framboð af afþreyingu, venjulegur körfuboltaleikur stenst ekki samanburðinn
- fólk nennir ekki lengur að standa upp úr sófanum
- leikirnir eru bara leiðinlegir
- leikirnir í deildarkeppninni skipta engu máli
- umfjöllun í fjölmiðlum er of lítil
- umfjöllun í sjónvarpi er of lítil
- það er of dýrt á leiki
- leikir ekki nægjanlega vel auglýstir
- ekkert að ske á leikjum, ekkert fjör
- íslenskur körfubolti er bara leiðinlegur
- lélegir dómarar eyðileggja leikina
- allt of margt annað skemmtilegt í boði
- deildarkeppnin skiptir engu máli, maður bíður bara eftir úrslitakeppninni
Sumt hér að ofan var líklega tvítalið og eflaust eru til enn fleiri “ástæður” fyrir því að fólk mætir ekki á þessa venjulegu deildarleiki, þetta er svona í fljótu bragði það sem ég man eftir að hafa heyrt.
Staðreynd málsins er sú að karfan er einfaldlega ekki nógu hátt skrifuð í hugum fólks til að fólk mæti. Þetta er sambland af nokkrum hlutum held ég. Fyrir tuttugu árum þá fóru Keflvíkingar og Njarðvíkingar á körfuboltaleiki. No matter what. Í vesturbænum í Reykjavík þá fer fólk á fótboltaleik. Oft tvö þúsund manns eða svo, eða jafnvel fleiri. Ef það er leikur, þá mæti ég á svæðið. Einfalt. Ef ég er Liverpool aðdáandi og bý í Bítlabænum, þá mæti ég á völlinn. Við höfum ekki þessa stöðu í körfunni. Hún verður til, tímabundið, meðan á úrslitakeppninni stendur, en fram eftir vetri, þá er fólki mikið sama. Ó, var leikur í gær?
Fleiri hlutir skipta máli. Það verður að segjast eins og er að margir leikir eru lélegir. En ég veit ekki hversu miklu máli það skiptir, ég fer oft á fótboltaleiki, þeir eru líka margir lélegir, en samt mæta kannski þúsund manns eða meira! Síðan er spurning um mikilvægi leikja, ég veit svo sem ekkert hvort það hefur áhrif. Sjáum bara New York Knicks, þeir geta ekkert og enginn leikur hjá þeim skiptir máli, þannig lagað séð, samt er alltaf troðfullt í Madison Square Garden!
Sem sagt, það er flókið að átta sig á því af hverju fólk kemur eða kemur ekki. Ekki ósvipað því sem gengur og gerist með skemmtistaði, og frægt er. Allt í einu hættir fólk að mæta og enginn veit af hverju. En ok, förum yfir í hina spurninguna, þá sem skiptir meira máli, hvað getum við gert til að fjölga áhorfendum? Og þegar ég segi “við” þá á ég við alla þá sem að þessum málum standa, sérstaklega innan félaganna, en einnig á stjórnunarstiginu hjá KKÍ. Hvað getum við gert?
Kannski við reynum að kasta fram einhverjum misgóðum hugmyndum á næstu dögum ….
Hrannar Hólm