Meistarakeppni KKÍ fer fram á sunnudag
Á sunnudaginn kemur verður meistarakeppni KKÍ haldin þar sem Íslandsmeistarar og Bikarmeistarar karla og kvenna frá fyrra ári mætast. Þetta markar upphaf nýs keppnistímabils í körfunni. Leikir fara fram í DHL höllinni í Vesturbænum og hefst kvennaleikur Hauka og Keflavíkur klukkan 17:00 og karlaleikur KR og ÍR klukkan 19:30.
Allt frá árinu 1995 hefur KKÍ haft þennan viðburð sem ágóðaleik fyrir einhver samtök sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda og í ár hefur SÁÁ orðið fyrir valinu. SÁÁ er einmitt að halda upp á 30 ára afmæli sitt um næstu helgi og því mikið að gerast.
Allur ágóði sem hlýst af leikjunum rennur óskiptur til SÁÁ
Yfirskriftin að þessu sinni er eftirfarandi: SÁÁ-Stuðningur við börn alkóhólista
Hér að neðan gefur að líta þau málefni sem hafa verið styrkt frá árinu 1995 með þessum árlegum leikjum Meistara fyrra árs:
Styrkþegar meistarakeppni KKÍ
1995 Samtök krabbameinssjúkra barna
1996 Jafningjafræðsla framhaldsskólanna
1997 Neistinn - styrktarfélag hjartveikra barna
1998 FSBU - foreldrafélag sykursjúkra barna
1999 LAUF - landssamtök áhugafólks um flogaveiki
2000 Samtök barna með tourett heilkenni
2001 PKU - Samtök foreldra barna með efnaskiptasjúkdóma
2002 Foreldrafélag geðsjúkra barna og unglinga
2003 Einstök börn
2004 MND-félagið
2005 Foreldrafélag barna með axlaklemmu
2006 Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra