"Mikilvægt að fá stuðning úr stúkunni", segir Bryndís Guðmunds
Keflavíkurstúlkur mæta Haukum í kvöld kl. 19.15 í TM-Höllinni í fyrsta leik liðanna í 4-liða úrslitum Domino´s deildar kvenna. Keflavík endaði í 2. sæti en Haukar í því þriðja en því var öfugt farið sl. tímabil sem endaði með því að Haukar slógu Keflavíkurstúlkur út í fyrstu umferð 3-0. Það má því segja að Keflvíkingar hafi harma að hefna og undir það tekur Bryndís Guðmundsdóttir leikmaður Keflavíkur. Bryndís hóf tímabilið ekki með Keflavík í vetur fyrr en eftir áramót þar sem hún fór í heimsreisu frá september til desember. Hún hefur styrkt liðið helling frá komu sinni og er að skila um 9 stigum og 6 fráköstum í leik.
Heimasíða Keflavíkur heyrði hljóðið í Bryndísi fyrir komandi átök.
Jæja, hvernig leggst úrslitakeppnin í þig?
Úrslitakeppnin leggst mjög vel í mjög, þetta er skemmtilegasti tíminn.
Þetta lið sópaði okkur út í fyrra - hvernig bætum við það upp og hvað verður helst lagt áherslu á?
Já, þetta var frekar súrt hjá okkur í fyrra en aðal áherslurnar hjà okkur núna er að spila góða vörn og þá kemur sóknarleikurinn hjá okkur.
Hver er munurinn á liðunum frá því í fyrra?
Munurinn frá því í fyrra er að við erum einu ári reyndari og með betri útlending með okkur
Ert þú að nálgast þitt besta form?
Veit ekki með besta en formið verður alltaf betra með hverjum degi myndi ég frekar segja
Er Keflavíkurliðið annars vel stemmt fyrir úrslitakeppnina?
Já, það finnst mér, æfingarnar eru búnar að vera góðar og við erum allar sem ein tilbúnar að leggja allt í þessa leiki sem framundan eru. Ég vona að fólkið mæti og styðji okkur stelpurnar til sigurs því það er mikilvægt fyrir okkur að fá stuðning frá stúkunni.
Mynd: Bryndís í leik gegn Grindavík sl. tímabil. Myndin er fengin að láni frá www.vf.is.