Mikilvægur sigur hjá Keflavíkurstúlkum
Stelpurnar unnu góðan sigur á Hamri í gærkvöldi 96:57. Leikurinn byrjaði jafn en í öðrum leikhluta fór Keflavík að sigla fram úr og gáfu lítið eftir það sem eftir var leiks.
Byrjunarliðið skipuðu þær Írena Sól, Thelma Dís, Emelía Ósk, Sandra Lind og Melissa Zornig. Allar stelpurnar komu hinsvegar til sögu í leiknum með eitt eða fleiri stig. Atkvæðamestar í Keflavíkurliðinu voru Monica Wright með 17 stig, 6 fráköst og 6 stolna bolta, Sandra Lind með 14 stig, 14 fráköst og 4 varin skot og loks Melissa Zornig með 14 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar.
Keflavíkurstúlkur eru í harðri keppni um sæti í úrslitakeppninni en aðeins fjögur efstu liðin fara í úrslitakeppni í Dominosdeild kvenna. Eins og staðan er í dag sitja Keflavíkurstúlkur í 4. sæti með 18 stig en Grindavík kemur þar á eftir, einnig með 18 stig. Grindavík á hinsvegar leik til góða. Í þriðja sætinu eru Valsstúlkur með 22 stig en þær sigruðu einmitt Grindavík í gærkvöldi. Haukar og Snæfell eru svo í sinni eigin keppni á toppnum, Haukar með 34 stig og Snæfell með 36.
Næstu leikir stelpnanna eru gegn Stjörnunni úti, miðvikudaginn 9. mars og svo gegn Haukum heima, laugardaginn 12. mars.
Áfram Keflavík!
Myndirnar með fréttinni eru fengnar af vef karfan.is